Frjór jarðvegur fyrir hefnigirni og hatur

Helgi Magnússon flytur ræðu sína á iðnþingi.
Helgi Magnússon flytur ræðu sína á iðnþingi.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði þegar hann setti iðnþing í dag, að hann sé þeirrar skoðunar að þjóðstjórn sé heppilegasta leiðin til að fást við efnahagsvandann. Þá sagði hann niðurrifsöflin blómstra í þjóðfélaginu og frjór jarðvegur sé fyrir neikvæðni, hefnigirni, reiði og hatur.

„Öllum er ljóst að Íslendingar urðu fyrir gríðarlegu áfalli. Um það er ekki deilt. Fyrst gekk gjaldeyriskreppa yfir þjóðina, þá bankakreppa og loks kreppa. Í stað þess að nýta tímann markvisst og vinna sig með sameiginlegu átaki út úr kreppunni, þá var dýrmætum mánuðum eytt í marklítið stjórnmálakarp sem nú birtist okkur í pólitískri kreppu ofan á allt hitt sem við er að fást.

Það átti auðvitað að semja pólitískt vopnahlé þannig að allir gætu tekið höndum saman um að greiða úr hinum mikla vanda. Það hefði átt að koma á þjóðstjórn. Ég er enn þeirrar skoðunar að þjóðstjórn sé nú heppilegasta leiðin," sagði Helgi og bætti við að samstarf núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu við lausn Icesavemálsins að undanförnu hafi gefið von um að þverpólitísk samstaða sé hagsmunum þjóðarinnar til framdráttar.

Þá sagði Helgi, að hinn almenna borgara vanti leiðsögn. „Fólk hefur ekki getað lyft séu upp úr farvegi vonbrigða og vonleysis eftir það sem gerðist. Okkur hefur skort leiðtoga, sem geta gefið raunhæfa von.  Niðurrifsöflin blómstra. Neikvæð umræða einkennir fjölmiðla, svonefnda bloggheima, álitsgjafa og sérfræðinga – jafnt raunverulega, tilbúna og sjálfskipaða. Það er því miður frjór jarðvegur fyrir neikvæðni, hefnigirni, reiði og hatur sem alið er á af miklum móð."

Sterk öfl gegn hagvexti

Helgi sagði, að ein ástæða þess að svo illa gengi að endurreisa efnahag Íslendinga væri sú að hér á landi væru áhrifamikil öfl sem virðast vera á móti hagvexti.

„Þessi öfl beita afli sínu gegn endurreisn atvinnulífsins vegna þess að þau telja að hag landsmanna verði betur borgið í framtíðinni án hagvaxtar. Þessi átök standa nú yfir á Íslandi. En við aðhyllumst ekki þetta sjónarmið,“ sagði Helgi.

Sagði hann unnt að endurreisa efnahag landsins býsna hratt ef nægur stuðningur ráðandi afla fæst við skynsamlega hagvaxtastefnu sem hrint yrði í framkvæmd hið fyrsta án þess að gengið væri á svig við eðlilega náttúruverndarstefnu.

Ræða Helga Magnússonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert