Stærsti skjálftinn til þessa

Eyjafjallajökull hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma. Mest er vitað …
Eyjafjallajökull hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma. Mest er vitað um gosið 1821 til 1823. rax

Jarðskjálfti upp á rúmlega þrjú stig mældist rétt fyrir fjögur í Eyjafjallajökli í dag. Er þetta stærsti skjálfti  í jöklinum til þessa þó litlu muni á honum og skjálftanum sem mældist um þrír í síðustu viku.

Vísindamenn sem voru að störfum við lónið í Gígjökli sem er í Eyjafjallajökli fundu vel fyrir skjálftanum að sögn Sigurlaugar Hjaltadóttur, sérfræðings á jarðskjálftasviði Veðurstofu Íslands.

Sigurlaug segir upptök skjálftans hafa verið á um sjö til tíu kílómetra dýpi líkt og fyrri skjálfta. Skjálftarnir séu stakir og ekki hafi orðið vart við meiri óróa  sem gæti bent til þess að gosórói eða kvika væri að koma upp.

Hún segir jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli vera stöðuga og jafna. Hún hafi farið að aukast upp úr hádegi en hafi nú minnkað aftur. Þetta gangi yfir í bylgjum.

Græn stjarna táknar jarðskjálfta upp á þrjá og yfir.
Græn stjarna táknar jarðskjálfta upp á þrjá og yfir. Af vef Veðurstofu Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert