Gosið aðeins öflugra en vatnsbráðnun minnkað

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug yfir gosstöðvarnar í dag. Myndin …
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug yfir gosstöðvarnar í dag. Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að vatnsbráðnun á gosstöðvum undir Eyjafjallajökli hafi minnkað í bili. Minna af vatni renni niður Gígjökul. Flóðið sé að fjara norðan megin, en sunnan megin hafi hlaupið fjarað minna. Flóðið þeim megin hafi hins vegar verið minna.

Hann segir gosið vera aðeins öflugra. „Sigkatlarnir hafa stækkað. Það sáum við úr radarmyndum úr vélinni. Gosmökkurinn heldur eflst, en þetta er ekkert voðalega öflugur gosmökkur. Hann nær kannski 30 km til austurs og sendir frá sér svolitla gjósku sem fellur á Fimmvörðuháls, Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul,“ segir Magnús Tumi.

Hann getur ekkert sagt til um það hvort gosið sé að verða kraftmeira. Það sé hins vegar að ná sér betur upp úr jöklinum. 

Búast megi við því að gosið verði svipað. Gosið sé ekki mjög öflugt.

„Þetta er hins vegar ekki góður staður til að hafa gos á. Síðasta gos á þessum stað stóð í á annað ár. Við skulum vona að þetta standi ekki eins lengi,“ segir Magnús Tumi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert