750 tonn á sekúndu

Gríðarlegt magn gosefna hefur komið frá eldfjallinu.
Gríðarlegt magn gosefna hefur komið frá eldfjallinu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskólans telja að fyrstu þrjá sólarhringana frá því að gos hófst í Eyjafjallajökli hafi 140 milljón m³af gosefnum komið úr eldfjallinu. Að meðaltali er flæðið 10-20 sinnum meira en var í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Þetta jafngildir því að 750 tonn af gosefnum hafi komið frá fjallinu á hverri sekúndu.

Starfsfólk Jarðvísindastofnunar hefur lagt fyrsta mat á kvikuflæði í gosinu í Eyjafjallajökli. Gosefnin eru eingöngu gjóska en hluti hennar varð til undir jökli og hluti hefur borist með hlaupum. Dreifingu gosefna má því skipta í þrennt:

  1. Gosefni sem safnast hafa fyrir í sigkötlunum í toppgíg Eyjafjallajökuls.
  2. Gosefni sem borist hafa með hlaupum og fyllt lón Gígjökuls og borist fram á Markarfljótsaura.
  3. Gosefni sem borist hafa með gosmekki og fallið sem gjóska. Loftborna gjóskan hefur aðallega borist til austurs og suðurs.

Bráðabirgðaniðurstöður fyrir fyrstu þrjá sólarhringana eru:

Gjóska sem safnast hefur í sigkatla 30 milljón m³
Gjóska/gosefni sem fylla lón Gígjökuls 10 milljón m³
Gjóska sem borist hefur með gosmekki 100 milljón m³
Samtals: 140 milljón m³

Gjóskan er mun léttari í sér en kvikan og því samsvarar þetta efni 70-80 milljón m³af kviku sem komið á þremur sólarhringum eða tæplega 300 m³/s eða 750 tonnum/sekúndu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert