Dregur úr gosvirkni

Dregið hefur úr gosvirkninni í Eyjafjallajökli og hefur gosstrókurinn horfið af ratar, en það þýðir að hann nær ekki þriggja kílómetra hæð. Erfitt er að spá fyrir um hvort þetta er tímabundið eða hvort gosið á eftir að færast í aukanna á ný.

Öskufall hefur ekki verið í byggð í dag. Ekki hefur sést vel til fjallsins í dag vegna skýja.

Árni Sigurðsson veðurfræðingur segir að í morgun hafi strókurinn náð 4-5 kílómetra hæð og því vel sýnilegur á ratar. Hann hafi síðan horfið af ratar. Of snemmt er hins vegar að fullyrða að gosið sé í rénun.

Eldgosið hefur valdið gríðarlegri röskun á flugi í Evrópu. Flugmálayfirvöld í álfunni vonast eftir að ástandið fari að lagast og reikna með að um 50% af öllum ferðum verði á áætlun á morgun.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug yfir gosstöðvarnar í dag til þess að athuga gang gossins.  Ratsjármyndir sýndu m.a. að gígarnir eru að stækka.  Mjög lítið rennsli er undan jöklinum og niður á Markarfljótsaura.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert