Fréttaskýring: Alvarlegasta gosið í mörg ár

Svo mikil aska hefur fallið við Seljavelli að nær engir …
Svo mikil aska hefur fallið við Seljavelli að nær engir litir eru lengur sjáanlegir og svo virðist sem veröldin umhverfis Seljavelli sé svarthvít. mbl.is/Ragnar Axelsson

Gosið í Eyjafjallajökli er sprengigos þar sem vatn blandast við kvikuna og svipar því til gosa í Grímsvötnum, Gjálpargoss og Surtseyjargossins, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings.

Hann bendir á að þegar rætt sé um heildarmagn gosefna sé þetta gos komið í flokk með litlum Heklugosum og þegar orðið fjórum sinnum stærra en síðasta gos í Grímsvötnum 2004. Magnið sé samt aðeins fjórðungur af því sem kom upp í Gjálpargosinu 1996.

Magnús Tumi segir að vegna efnasamsetningar gjóskunnar myndist fín aska og fínni aska en sést hafi í mjög langan tíma. Fín aska svífi hægt til jarðar og berist því lengra en til dæmis aska úr gosi í Grímsvötnum eða Kötlu hafi gert. Hins vegar falli sáralítið magn til jarðar í útlöndum og áhrifin þar því örugglega minni en vegna iðnaðarmengunar þar sem hennar gæti að ráði. Öskufallið sé einkum í sveitunum fyrir sunnan og austan gosstöðina.

Staðsetning gossins í jökli annars vegar og nálægð þess við byggð hins vegar geri það erfiðara viðfangs en þau gos sem komið hafa síðan gaus í Vestmannaeyjum 1973. „Þetta er alvarlegasta gosið sem ég hef komið að og ég hef komið að öllum gosum hérlendis undanfarin 15 ár,“ segir Magnús Tumi.

Sjá ítarlega umfjöllun um eldgosið, áhrif þess og afleiðingar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert