Syðri gígurinn er óvirkur

Gosmistur undir Eyjafjöllum.
Gosmistur undir Eyjafjöllum. mbl.is/RAX

Syðri gosgígurinn á Eyjafjallajökli er nú orðinn óvirkur og kraftur eldgossins, sem dvínar hratt, er nú aðeins um tíundi hluti þess sem var á þremur fyrstu dögum gossins. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.

Magnús Tumi flaug með þyrlu frá Landhelgisgæslunni yfir gosstöðvarnar í dag. Flugið var torsótt, meðal annars vegna ösku í lofti. Því var skyggni takmarkað.

„Í nyðri gíg jökulsins er blönduð virkni annars vegna sprengivirkni sem myndar ösku og hins vegar klepravirkni með kvikuslettum. Við sáum ekki nein skýr merki um hraunrennsli í nyðri katlinum en get þó ekki fullyrt hvort einhver hraunbleðill hafi myndast þar. Í meginatriðum er þetta því sprengigos," segir Magnús Tumi. Hann bætir við að þykk aska hafi lagst yfir Eyjafjallajökul sem sumstaðar sé 10 til 20 metrar á þykkt og þar séu gígar að byrja að hlaðast upp.

Talsverður gosórói hefur verið í Eyjafjallajökli síðustu daga enda þótt kraftur gossins hafi heldur minnkað. Órói þessi er með öðrum orðum sagt samfelldur titringur í iðrum jarðar sem starfar frá gosrásinni og gígunum. „Ekki er einfalt samræmi milli gosórói og kvikusteymi, það er viðfangsefni sem þarf að skoða betur,“ segir Magnús Tumi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert