„Menn eru stjörnuvitlausir“

Jóhann Páll fer hörðum orðum um stjórnarhætti Vilhjálms Egilssonar.
Jóhann Páll fer hörðum orðum um stjórnarhætti Vilhjálms Egilssonar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Menn eru alveg stjörnuvitlausir. Ef við veljum ekki að breyta þessu þjóðfélagi núna og þessu lífeyriskerfi fer illa. Ég vil ekki hugsa þetta til enda. Þetta er dapurlegt,“ sagði Jóhann Páll Símonarson, sjóðsfélagi í Gildi - lífeyrissjóði, eftir hitafund hjá sjóðnum á Grand Hóteli.

Krafa Jóhanns Páls og hátt í 40 sjóðsfélaga um stjórnin viki sæti vegna meintra afglapa í starfi var felld en þau tíðindi urðu á fundinum að Tryggvi Tryggvason sjóðsstjóri vék sæti.  

Líkir Vilhjálmi við Brezhnev 

Jóhann Páll beinir spjótum sínum að Vilhjálmi Egilssyni, formanni stjórnar sjóðsins, og sakar hann um að hafa virt lýðræðislega stjórnarhætti að vettugi. 

„Þetta er ósköp svipuð stefna og Brezhnev notaði á sínum tíma. Hann keyrði yfir fólkið. Það er ekkert lýðræðið. Vilhjálmur beitir fólk valdbeitingu. Hann er ekkert annað en Brezhnev. Þetta eru alvarleg orð en hann á það skilið. Ég er búinn að segja honum það,“ segir Jóhann Páll og vísar til Leoníds Brezhnev, fyrrverandi aðalritara sovéska kommúnistaflokksins.

Jóhann Páll er harðorður og fullyrðir að stjórn sjóðsins hafi látið undan þrýstingi frá stóru bönkunum og tekið ákvarðanir um fjárfestingar sem hafi til lengri tíma litið verið gegn hagsmunum sjóðsþega. Stjórnin hafi haldið áfram að fjárfesta í bönkunum þrátt fyrir vitneskju um að þeir stæðu ekki á eins sterkum grunni og af væri látið.

Náin tengsl stjórnarinnar og fulltrúa bankanna hafi þannig truflað eðlilega ákvarðanatöku.

Laxveiði með Kaupþingi

Máli sínu til stuðnings vitnar Jóhann Páll í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins, nánar til tekið til kaflans um lífeyrissjóði. Þar segir á blaðsíðu 71:

„Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir að hann hafi sett sér þá reglu að þiggja ekki laxveiðiferðir en viðurkennir að einstaka starfsmenn í eignastýringu hafi farið í laxveiði með hans vitneskju:

„[K]annski ekki endilega með mínum vilja, en allavega hef ég svona óbeint leyft þeim það í einstaka tilvikum.“

 Í gögnum frá Kaupþingi kemur fram að Tryggvi Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar Gildis, hafi farið í laxveiðiferðir á vegum Kaupþings.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert