Fleiri björgunarbátar til Austfirðinga

Björgunarbátunum landað úr flutningaskipi Samskipa.
Björgunarbátunum landað úr flutningaskipi Samskipa.

Björgunarsveitir á Austurlandi eru í óða önn að búa sig undir aukna smábátaútgerð sem fylgir strandveiðunum. Í því skyni hafa tveir harðbotna björgunarbátar verið fluttir inn til landsins frá Bretlandi, fyrstu sinnar tegundar hér á landi og eru fleiri slíkir bátar væntanlegir.

Flutningaskip Samskipa, El Bravo, er nýkomið til Reyðarfjarðar með bátana, sem eru af gerðinni Atlantic 75, fyrir björgunarsveitirnar í Neskaupstað og Fáskrúðsfirði. Samskip styrkja björgunarsveitirnar með flutningi á bátunum auk þess sem fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar á Austurlandi leggja fé í verkefnið, segir í tilkynningu.

Mikið átak er verið að gera í sjóbjörgunarmálum á Austurlandi og er koma þessara báta hluti af því. Bátarnir eru keyptir notaðir af RNLI, systursamtökum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert