Rannsakar nokkur mál sem varða Landsbankann

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Slitastjórn Landsbankans hefur tilkynnt mál til sérstaks saksóknara sem varðar rekstur Landsbankans fyrir hrun. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að verið sé að rannsaka nokkur mál sem varðar Landsbankann.

Ólafur Þór vildi ekki upplýsa um hvaða mál væru til rannsóknar að öðru leiti en því að hann væri að rannsaka svokallað Imon-mál, sem varðar rannsókn á því hvort stórir hluthafar í Landsbankanum hafi losað stöður sínar í bankanum föstudaginn 3. október, þremur dögum fyrir setningu neyðarlaganna. Eins er sérstakur saksóknari að rannsaka eignastýringu Landsbankans á lífeyrissjóðum sem voru í hans umsjón. Lífeyrissjóðirnir sem eiga í hlut eru Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Eimskipafélagsins, Lífeyrissjóður Tannlæknafélagsins, Eftirlaunasjóður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Kjölur lífeyrissjóður.

Ólafur Þór sagði að rannsókn á þessum málum væri langt komin.


Herdís Hallmarsdóttir, sem sæti á í slitastjórn Landsbankans, sagði að slitastjórn Landsbankans hefði tilkynnt mál til sérstaks saksóknara vegna gruns um refsiverða háttsemi. „Við höfum líka haft samráð við sérstakan saksóknara um ýmislegt. Hann hefur óskað eftir ákveðnum gögnum og hann fær að sjálfsögðu öll þau gögn sem hann óskar eftir.“

Slitastjórn Landsbankans réði sl. sumar teymi sérfræðinga frá Deloitte í Bretlandi til að rannsaka aðdraganda að falli Landsbankans. Herdís sagði að rannsóknin væri langt á veg komin, en hún treysti sér ekki til að svara því hvenær henni lyki. Fundur með kröfuhöfum í slitabúi Landsbankans verður haldinn 27. maí, en á fundinum munu þeir sem eru í forsvari fyrir rannsóknarteymið gefa upplýsingar um framgang rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert