Lýsing má leysa til sín bíl

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu eignaleigufyrirtækisins Lýsingar um að leysa til sín bíl vegna vanskila umráðamanns.  Jafnframt úrskurðaði dómurinn að áfrýjun til Hæstaréttar fresti aðfarargerðinni.

Umráðamaður bílsins gerði samning við Lýsingu í byrjun ársins 2008 um fjármögnun bílakaupa og var samningurinn gengistryggður miðað við krónu, japanskt jen og svissneska franka. Umráðamaðurinn lenti í vanskilum árið 2008 og Lýsing rifti síðan samningnum haustið 2009 og sendi dómstólum síðan aðfararbeiðni.

Umráðamaður bílsins mótmælti því hins vegar að hafa verið í vanskilum og færði nokkrar ástæður fyrir því, meðal annars þá að greiðsluáætlun samningsins hefði verið í krónum og Lýsing hafi ofkrafið sig um leigugjald. Nokkur mál hafa fallið að undanförnu þar sem héraðsdómarar hafa talið að verðtrygging krónulána miðað við gengi erlendra gjaldmiðla hafi ekki verið heimil. Beðið er niðurstöðu Hæstaréttar í þessum málum.

Héraðsdómur segir hins vegar í niðurstöðu sinni í þessu máli, að málsástæður, sem varði réttarsamband aðila, geti eingöngu komist að í almennu einkamáli. Þar sem ekki hafi verið skorið úr um það fyrir dómstólum hvort efni samnings aðila hafi verið ólögmætt hafi umráðamaður bílsins ekki upp á sitt eindæmi, breytt efni samningsins og miðað afborganir sínar við aðrar forsendur en fram koma í samningnum.

Samkvæmt samningnum sé Lýsingu heimilt að rifta samningi aðila ef umráðamaður innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningnum á umsömdum gjalddögum. Hafi umráðamaðurinn ekki sýnt fram á að hann hafi greitt af samningnum og að hann hafi verið í skilum, samkvæmt ákvæðum samningsins, þegar samningnum var rift í nóvember sl. 

Umráðamaður bílsins var dæmdur til að greiða Lýsingu 200 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert