Álitið gegn lagahefð á Íslandi

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Árni Sæberg

„ESA kemst að þeirri niðurstöðu að ríkið sé ábyrgt án þess að það standi í lögum eða tilskipuninni sjálfri [...] Þess vegna eru þetta sérstaklega veik rök sem þeir eru að nota,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um niðurstöðu ESA í Icesave-deilunni.

„Það ber að hafa í huga að þetta er ekki dómur. Þetta er álit ESA í málinu. Það fjallar um álitaefni sem við höfum tekið til skoðunar áður, síðast í rannsóknarskýrslu Alþingis. Við höfum komist að þveröfugri niðurstöðu um þessi atriði. Það er engin ástæða til þess að hrökkva í kút við þetta álit. Nú þarf að gaumgæfa þau rök sem þarna eru týnd til og gefa sér tíma til að svara þeim.“

Opnar á dómstólaleiðina 

Bjarni kveðst sammála því mati Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors að niðurstaða ESA auki líkurnar á að dómstólaleiðin verði farin í málinu.

„Tvímælalaust. Með því að ESA tekur á álitaefninu um ríkisábyrgð hefur opnast fyrir þann möguleika að reyna á það vilji menn gera það.“

Bjarni ítrekar að niðurstaðan feli ekki í sér nein nýmæli.

„Það sem við erum að sjá þarna eru í sjálfu sér ekki ný sjónarmið. Við höfum verið að takast á um þessa hluti við Breta og Hollendinga í langan tíma og komist að annarri niðurstöðu. Ég veit ekki til þess að það sé neinn ágreiningur uppi á Íslandi um að við séum annarrar skoðunar. Það var til dæmis skrifað inn í Icesave-lögin sem voru samþykkt í lok síðasta árs að við teldum okkur ekki hafa lagalega skuldbindingu.“

Gegn reglunni á Íslandi 

Bjarni vísar jafnframt til lagalegrar hefðar á Íslandi varðandi skuldbindingar á hendur ríkinu.

„Við fylgjum þeirri reglu hér á Íslandi að ef að fyrir einhverjum skuldbindingum á að vera ríkisábyrgð þurfi að setja um slíkt lög. ESA kemst að þeirri niðurstöðu að ríkið sé ábyrgt án þess að það standi í lögum eða tilskipuninni sjálfri.

Stofnunin virðist leiða það einhvern veginn af eðli máls. Þess vegna eru þetta sérstaklega veik rök sem þeir eru að nota.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert