Rannsaki Icesave-málið

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson. Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Mín skoðun er sú það sé nauðsynlegt að rannsaka Iceave-málið. Þetta er gífurlegt hagsmunamál fyrir þjóðina. Tilurð þess er mjög einkennileg og hvernig reikningarnir voru stofnaðir,“ segir Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, um ályktun sem bæjarstjórnin samþykkti í Icesave-deilunni. 

Áskörunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, 11-0, í bæjarstjórninni í dag en hún var lögð fram af Gunnari.

Troðið ofan í þingheim

Gunnar kveðst líta svo á að málinu hafi verið „troðið ofan í alþingismenn“. Samningsdrögunum hafi síðan verið hafnað af forsetanum og þjóðinni og upphæðin í kjölfarið lækkað um 50 til 100 milljarða í samningalotunni sem eftir fylgdi.

„Ég vil fá feril þessa máls frá upphafi til dagsins í dag, hverjir gerðu hvað og svo framvegis. Tillaga mín er áskorun til Alþingis, áskorun bæjarstjórnar til Alþingis um að stofna rannsóknarnefnd,“ segir Gunnar sem kveðst sjá fyrir sér að sama fólk og fór fyrir gerð rannsóknarskýrslunnar leiði umrædda rannsókn.  

„Þetta er langt um minna verk og liggur svo sem allt fyrir. Þetta ætti því hvorki að útheimta mikla vinnu eða mikinn kostnað. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita hvernig í ósköpunum þessir reikningar gátu komist á koppinn með samþykki íslenskra yfirvalda og eftirlitsstofnanna og einnig hvernig eftirleikurinn varð þegar bankakerfið hrundi og samningar voru gerðir í kjölfarið.“

Gunnar segir áskorunina verða lagða fyrir Alþingi á næstunni en hann væntir þess aðspurður að hún verði samþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert