Loka Þórsmörk vegna flóðahættu

Gígurinn í Eyjafjallajökli kl. 07:55 í morgun.
Gígurinn í Eyjafjallajökli kl. 07:55 í morgun. vedur.is / Sigurlaug Hjaltadóttir

Almannavarnir hafa ákveðið að loka fyrir almenna umferð í Þórsmörk vegna hættu á skyndilegum flóðum úr gígnum á Eyjafjallajökli. Vísindamenn urðu þess varir í morgun að mikið vatn hafði safnast saman í gígnum. Vísindamenn könnuðu aðstæður við gosstöðvarnar í kvöld úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Þetta kom fram í fréttum RÚV klukkan tíu.

Lónið í gígnum er um 300 metrar í þvermál og mun það að öllum líkindum leiða til hlaups niður Gígjökul. Þetta hefur RÚV eftir Magnúsi Tuma, jarðeðlisfræðingi, en hann segir að flóðið verði sennilega ekki á allra næstu dögum. Þó sé full ástæða til að takmarka umferð um svæðið.

Lögreglan á Hvolsvelli segir að þrátt fyrir skilti við Gígjökul sem bannar fólki að fara um jökulinn vegna hættu á flóðum og gasi hafi fólk verið á ferli á svæðinu. Þó nokkur umferð hefur verið um svæðið.

Kjartan Þorkelsson sýslumaður í Rangárvallasýslu, segir hættu á flóði niður Gígjökul og út í Markarfljót. Hann segir erfitt á þessari stundu að segja fyrir um hvort hætta er á stóru flóði. Vatn safnist fyrir og það geti brotist fram með litlum fyrirvara. Ákveðið hafi verið að banna alla almenna umferð inn í Þórsmörk, en staðan verði endurmetin eftir helgi þegar búið sé að kanna betur stöðuna uppi á jöklinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert