Dópið dýrara vegna gjaldeyrishafta og gengis

Meira er ræktað af marijúna á landinu þrátt fyrir að …
Meira er ræktað af marijúna á landinu þrátt fyrir að innflutt hass sé ódýrara, vegna gjaldeyrishafta. mbl.is

Aðgerðir lögreglu og stórar haldlagningar á fíkniefnum sem þeim fylgja hafa takmörkuð áhrif á markaðsverð fíkniefna. Aftur á móti hefur verð á fíkniefnum hækkað að undanförnu, að því er virðist vegna samverkandi áhrifa frá gjaldeyrishöftum og gengislækkunum. Þetta kemur fram í lokaritgerð sem Eiríkur Ragnarsson og Jón Sigurðsson gerðu við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Í rannsókninni leituðust þeir Eiríkur og Jón við að greina fíkniefnamarkaðinn og skoða ytri áhrif á þróun hans. Þeir skoðuðu framboð á íslenskum fíkniefnamarkaði miðað við önnur lönd og reyndu að henda reiður á eftirspurninni og því hvernig verðmyndun er á markaðnum. Útgangspunkturinn var að skoða hvort haldlagningar lögreglu síðustu ár hafi leitt til hækkana á verði og minnkandi framboðs á fíkniefnamarkaðnum, eða hvort aðrir utanaðkomandi þættir leiki stærra hlutverk. Skoðaðar voru yfirgripsmestu haldlagningar lögreglu síðustu ár og áhrif þeirra rakin.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að aðgerðir lögreglu og stórar haldlagningar sem þeim fylgja hafa mjög takmörkuð áhrif á verð á fíkniefnum hér á landi. Oftast er aðeins um skammtímaáhrif að ræða þar sem markaðurinn er frekar fljótur að jafna sig. Við athugun á haldlagningum lögreglu greindust í nokkrum tilfellum sjáanlegir toppar við handtöku sakbornings og eða haldlagninguna sjálfa. Aftur á móti þykir ljóst að veiking íslensku krónunnar hefur haft mikil áhrif á fíkniefnaverð. Ennfremur bendir margt til þess að gjaldeyrishöft hafi áhrif til verðhækkunar.

Meðal annarra mögulegra áhrifa gjaldeyrishafta á verðlagið, sem leiddar eru líkur að í ritgerðinni, má nefna að takmörkun á úttekt erlends gjaldeyris hefur þau áhrif að þeir sem flytja fíkniefnin inn eiga erfitt með að nálgast gjaldeyri og færist kostnaðurinn af því á endanum út í verðið á efnunum. Þá gefur aukning á ræktun marijúana í landinu til kynna að gjaldeyrishöftin hafi áhrif, því framleitt er meira innanlands þrátt fyrir að innflutt hass sé ódýrara.

Höfundar ritgerðarinnar telja að menn hafi ekki bolmagn til þess að flytja inn nægilegt framboð af hassi og framleiði þess í stað maríjúana. Þá má nefna að fall krónunnar 2001 og 2006 skilaði sér ekki út í verðlag fíkniefna líkt og gerðist árið 2008 þegar gjaldeyrishöft voru sett á. Þetta bendir til þess að gengislækkun og gjaldeyrishöft hafi haft samverkandi áhrif til hækkunar á verði fíkniefna tímabilið 2008-2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert