Einhliða aðgerð án alls samráðs

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.

„Þetta er algerlega einhliða og án alls samráðs við fulltrúa neytenda eins og embætti talsmanns neytenda. Þarna er farið algerlega eftir ýtrustu kröfum fjármálafyrirtækjanna þannig að það eru ekki mikil tilmæli til þeirra fólgin í því. Það er aðeins verið að biðja þá að innheimta þær kröfur sem væru þær ýtrustu ef þeir færu í mál til þess að reyna að hnekkja dómum Hæstaréttar,“ segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, í tilefni af þeim tilmælum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til fjármálafyrirtækja að taka mið af lægstu óverðtryggðum og verðtryggðum vöxtum Seðlabankans á hverjum tíma við innheimtu á gengistryggðum lánum sem falla undir dóma Hæstaréttar á dögunum.

Samkvæmt vef Seðlabanka Íslands eru vextir á óverðtryggðum útlánum 8,25%, en á verðtryggðum útlánum 4,8%.

Gísli gagnrýnir ennfremur að þetta skuli tilkynnt af hálfu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í dag síðasta dag mánaðarins rétt áður en greiðslur eigi að fara fram af umræddum lánum. Greinilegt sé að búið sé að taka þessa ákvörðun fyrir margt löngu enda ljóst að það taki sinn tíma að stilla öll innheimtukerfi eftir þessum nýju forsendum. 

Gísli segist telja að mjög hæpin lagastoð sé fyrir tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Þau fari í raun í gegn 60. grein stjórnarskrárinnar að stjórnvöld séu að grípa inn í fordæmisgildi dóma. Þar sé kveðið á um það að dómstólar eigi síðasta orðið en stjórnvöld aðeins til bráðabirgða.

Hann segir að búast megi við að embætti talsmanns neytenda sendi frá sér leiðbeiningar í kvöld eða á morgun til neytenda um það hvernig bregðast skuli við tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert