Mikið hitaútstreymi í jöklinum

Eyjafjallajökull séður frá Skógasandi í morgun.
Eyjafjallajökull séður frá Skógasandi í morgun. mynd/Jónas Erlendsson

 „Það er ekkert óvanalegt að gerast. Það er mjög mikið hitaútstreymi frá gígnum ennþá, og það kemur aðallega í formi gufu,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur, sem flaug yfir jökulinn í morgun. Hann segir gufumökkinn rísa í um þriggja til fjögurra km hæð.

„Nú í dag eru kjöraðstæður fyrir gufuna. Það er lítill vindur og frekar lágur loftþrýstingur, þannig að gufan stígur mjög hátt og dreifist lítið. Þess vegna verður til þessi verulegi mökkur,“ segir Magnús Tumi í samtali við mbl.is.

Þá segir hann að vatnið í gígnum hafi lítið hækkað, en það sé mikill hiti í því. Þetta sé ekki óvanalegt. „Það er ennþá kvika þarna undir gosrásinni og kvika og heitt berg sem er að kólna.“

Engar gosagnir

Aðspurður segir Magnús Tumi að engar gosagnir séu í mökkinum. Þetta sé bara vatnsgufa og mjög öflug jarðhitavirkni. Flugfélög og flugfarþegar þurfi því ekki að hafa miklar áhyggjur af flugröskunum vegna þessa.

„Það er ekki kvika í þessu eða aska. Það hefur ekki rifið sig upp gos þannig að það sé aska að koma upp. Hins vegar er mjög mikið hitauppstreymi og það má jafnvel kalla það gufugos,“ segir Magnús Tumi og bætir við að nú séu kjöraðstæður fyrir mökkinn til þess að rísa.

Útilokar ekki neitt

Ekki hefur mælst mikill órói í Eyjafjalljökli og telur Magnús Tumi að aðallega sé um að ræða gufumökk. Undanfarnar vikur hafi breytingar verið litlar. Nú séu aðstæður hins vegar þannig að það sést vel til jökulsins.

„Það er mikið varmaútstreymi þarna sem segir að það er alls ekki allur hiti búinn þarna,“ segir Magnús Tumi.

Hann vill ekki útiloka neitt þegar hann er spurður hvort líkur séu á því að jökullinn fari aftur að byrsta sig, þ.e. að nýtt gos hefjist. „Það er erfitt um að segja. Við viljum ekkert afskrifa þann möguleika, að þetta rífi sig upp aftur. Þá horfa menn náttúrulega til sögu þessa eldfjalls,“ segir Magnús Tumi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert