Ísbjarnarhræið reyndist hvalspik

Ísbjörn sem gekk á land á Hrauni fyrir nokkrum árum.
Ísbjörn sem gekk á land á Hrauni fyrir nokkrum árum. mbl.is/Rax

Tilkynning um ísbjarnarhræ á Vestfjarðakjálkanum barst Náttúrufræðistofnun Íslands snemma í síðastliðnum maí. Þegar starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands fór á vettvang leiddi rannsókn í ljós að ekki var um að ræða ísbjörn heldur allstóra klessu af hvalfitu sem lá í fjörunni.

Forsaga málsins er sú að bóndi skammt frá taldi sig sjá spor eftir ísbjörn í kartöflugarði sínum. Þegar hann sá hvítt hrúgald í fjöruborðinu lagði hann saman tvo og tvo, fékk út fimm og tilkynnti Náttúrufræðistofnun um ætlað hræ.

„Þetta átti ekkert skylt við hvítabjörn,“ segir Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann segir að í sparnaðarskyni hafi verið beðið með að athuga málið þar til starfsmenn ættu erindi vestur.

Sótti rostungsbein fyrir NÍ

Finnandinn var beðinn um að halda málinu leyndu þar til fulltrúi Náttúrufræðistofnunar hefði fengið færi á að glöggva sig á hinu ætlaða hræi. Þá hélt stofnunin tilkynningunni leyndri svo hún gæti staðreynt fundinn áður en hann yrði á allra vitorði og fólk færi jafnvel að gera sér ferð að hræinu. Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun, segir að finnandinn, sem í upphafi vildi gjarnan gera frétt úr fundinum, hafi verið mjög feginn að hafa þagað um málið þegar rannsókn leiddi sannleikann í ljós. Þorvaldur fór á staðinn fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar í lok síðasta mánaðar til athuga hvort um ísbjarnarhræ væri að ræða. Hann var þá hvort eð var á ferð um svæðið að sækja beinagrind af rostungi og fylgdi tilkynningunni um málið eftir í leiðinni.

„Þetta var bara fita utan af hval, klessa uppi í fjörunni,“ segir Þorvaldur.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert