Laun drógust saman um 38 milljarða

Laun og hlunnindi drógust saman um rúma 38 milljarða milli áranna 2008 og 2009 en atvinnuleysisbætur hækkuðu hins vegar á milli ára um 16,7 milljarða. Þetta kom m.a. fram við álagningu opinberra gjalda árið 2010.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra bera upplýsingar úr skattframtölum órækan vitnisburð um þau umskipti sem urðu í efnahagslífi þjóðarinnar haustið 2008.  Nú töldu alls 27.638 manns fram atvinnuleysisbætur á skattframtali, sem er margfalt fleiri en á undanförnum árum. Þá tóku 10.254 út séreignarlífeyrissparnað og 39.184 nýttu sér sérstakan rétt til að taka út séreignarlífeyrissparnað.

Tæpir 35,9 milljarðar voru greiddir úr séreignarsjóðum en þar af var tæpur 21 milljarður sérstök útborgun. Bótagreiðslur og úttekt úr séreignarlífeyrissjóðum vega þannig tímabundið upp tekjutap.

Tekjuskattsstofn hækkaði um 1,5% á milli ára, eða 11,9 milljarða, þrátt fyrir að greidd laun hafi lækkað um 5,8%.

Álagningin nú er fyrsta álagningin eftir sameiningu skattumdæma sem kom til framkvæmda við síðustu áramót. Ríkisskattstjóri segir, að hin breytta framkvæmd hafi gengið vel og m.a. voru skil á framtölum mun betri nú en síðustu ár. Alls sættu 13.750 einstaklingar áætlunum eða 5,26% af skattgrunnskrá. Til samanburðar sættu 22.330 framteljendur áætlun fyrir tveim árum.

Álagningarskrár liggja frammi á skattstofum fram til 11. ágúst 2010 en kærur þurfa að hafa borist ríkisskattstjóra fyrir 27. ágúst. Einstaklingar geta skoðað álagningarskrár sínar á vefnum skattur.is ef þeir eru með veflykil frá embætti ríkisskattstjóra. 

Helstu niðurstöður álagningar 2010 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert