Verðbólgan ekki minni frá hausti 2007

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA. mbl.is/Golli

„Þetta er langlægsta verðbólgan frá því fyrir hrun, og í raun og veru lægsta verðbólgan síðan haustið 2007. Þannig að við erum komin yfir afleiðingarnar af þessu gengishruni,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, spurður um lækkun vísitölu neysluverðs.

Hann segir að það hafi komið nokkuð á óvart hve verðbólgan hafi lækkað mikið. Hannes bendir á að skattar hafi verið hækkaðir að undanförnu, t.d. á virðisaukaskatti og ýmsum vörugjöldum. „Verðbólgan er í raun mun minni, sé litið fram hjá skattahækkunum, eða 4% síðustu 12 mánuði,“ segir Hannes í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann þetta vera jákvæðar fréttir og menn séu bjartsýnni á að hér á landi muni ríkja stöðugleiki í íslensku efnahagslífi næstu misserin. Það sé jafnframt ánægjulegt að gengisstyrkingin sé nú að koma skýrt fram.

Kallar á hraðari vaxtalækkunarferli

„Núna eru stýrivextir Seðlabankans 8% og ef við miðum við 4% verðbólgu þá eru raunstýrivextir Seðlabankans mjög háir. Þetta hlýtur að kalla á mun hraðari vaxtalækkunarferli heldur en hefur verið í gangi undanfarið,“ segir Hannes. Seðlabankinn verði að taka stærra skref en áður við lækkun stýrivaxta, jafnvel 2%.

Hann segir að áhrif sumarútsalanna séu meiri en menn hafi gert ráð fyrir. „Það kann að vera að hluti skýringarinnar felist í gengisstyrkingunni,“ segir Hannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert