Rannsóknarleyfi ekki yfirfæranleg

Magma Energy Sweden AB eignast engin rannsóknarleyfi á virkjunarkostum á Íslandi með beinum hætti, vegna sölunnar á HS Orku. Þetta segir Júlíus Jónsson hjá HS Orku, þegar blaðamaður mbl.is ber undir hann spurningu frá þeim Björk Guðmundsdóttur, Jóni Þórissyni og Oddnýju Eiri Ævarsdóttur.

Í fréttatilkynningu varpa þau fram þeirri spurningu á hversu mörgum landsvæðum Magma í Svíþjóð fái rannsóknarleyfi og hugsanlega virkjanaleyfi, ef af sölunni á HS Orku verður.

„Nýlega bárust fréttir af nýjum rannsóknarleyfum Suðurorku ehf., en HS Orka á þriðjung í því fyrirtæki.  Virðist sem að ef af fyrirhugaðri sölu á HS Orku verði muni Magma Energy fá rannsóknarleyfi Suðurorku ehf.," segir í tilkynningu Bjarkar, Jóns og Oddnýjar.

Júlíus segir að öll slík leyfi séu gefin út á ákveðnar kennitölur og séu ekki yfirfæranleg. Engin áform séu um að láta yfirfæra leyfin á milli fyrirtækja. Þegar þar að komi að einstakir virkjunarkostir verði fullrannsakaðir og taldir álitlegir þurfi að fá virkjunarleyfi. ,,Ef viðkomandi eigandi verður ekki þóknanlegur þáverandi stjórnvöldum geta þau stoppað þau virkjunaráform eins og allt annað í þessu landi," segir Júlíus.

Hins vegar er ljóst að sem eigandi fyrirtækjanna sem hafa leyfin mun Magma hafa forræði á rannsóknum þeirra á viðkomandi landsvæðum, sem eigandi. Þar sem HS Orka á Suðurorku ekki að fullu er það hins vegar samningsatriði við aðra eigendur, hvernig fara skuli með leyfin og áformin.

Engu að síður liggur beint við að spyrja Júlíus hvar fyrirtæki tengd Magma og HS Orku hafi slík leyfi?

„Við erum með rannsóknarleyfi í Krýsuvík, langtímasamning í Eldvörpum og svo virkjanirnar tvær. Annað er það ekki," segir Júlíus og vísar í Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Þar að auki á HS Orka hlut í Suðurorku sem hefur rannsóknarleyfi vegna áforma um Búlandsvirkjun í Skaftá.

Hann segir ekkert hafa verið til umræðu hjá HS Orku að fá leyfi í Mývatnssveit eða Bjarnarflagi eins og Björk hefur nefnt til sögunnar. Hins vegar hafi einu sinni verið haft samband við HS Orku með fyrirspurn um hvort fyrirtækið vildi taka þátt í verkefninu á Þeistareykjum. Ákveðið hafi verið að taka ekki þátt í því.

Morgunblaðið leitaði eftir því við samstarfsmenn Bjarkar, eftir að hún sagði í viðtali við Sunnudagsmoggann að fólk óttaðist að missa vinnuna ef það yrði nafngreint í sambandi við þau áform sem Magma hafi um virkjanir og yfirráð yfir auðlindum, hvort hægt væri að komast í samband við það fólk, ef nafnleyndar yrði gætt.

Morgunblaðinu barst í kjölfarið nafnlaust bréf á ritstjórnarskrifstofur þar sem sagði meðal annars að Magma ætti nú hlut í Fjarðarárvirkjun. Bæði Júlíus og Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, neita því og segja hvorugt fyrirtækið, Magma né HS Orku eiga nokkuð í þeirri virkjun.

Júlíus segir hið rétta að HS Orka hafi gert samning um orkukaup við Íslenska orkuvirkjun ehf., sem á Fjarðarárvirkjun. HS Orka selji mun meiri raforku út á netið en fyrirtækið framleiðir og orkan frá Fjarðarárvirkjun sé þar á meðal. Gerður hafi verið tímabundinn samningur um það á sínum tíma.

Bloomberg fréttastofan fjallar um Magma málið í dag. Í þeirri umfjöllun er rætt við Björn Þór Arnarson, hagfræðing hjá Viðskiptaráði, sem segir að sú ákvörðun stjórnvalda að láta undan þrýstingi frá Björk og félögum geti orðið til þess að fæla fjárfesta frá Íslandi.

Einnig er rætt við Andra Gunnarsson, lögmann hjá Nordik Legal, sem segir að breytingar á lögum um skatta hafi hrakið fjárfesta frá landinu. Erlendir skjólstæðingar hans hafi ákveðið að draga úr umsvifum sínum og áformum á Íslandi, vegna þess að þeir telji þau ekki lengur arðbær. ,,Ríkisstjórnin var margsinnis vöruð við þessu," er haft eftir Andra.

Björn Þór segir þar að allt tal um þjóðnýtingu  eða yfirtöku á hlut Magma í HS Orku fæli fjárfeta frá landinu og dragi úr trúverðugleika Íslands. „Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að ákvarðanir og aðgerðir sem beinast að einum geira munu skapa fordæmi fyrir því að það verði gert í öðrum greinum líka," segir Björn Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert