Láninu frestað fram í september

Frá kynningu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á Búðarhálsvirkjun. Fyrirtækið á …
Frá kynningu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á Búðarhálsvirkjun. Fyrirtækið á erfitt með að fjármagna framkvæmdina. mbl.is/Rax

Stjórn Fjárfestingabanka Evrópu ákvað á fundi sínum í júlí að fresta lánveitingu til Landsvirkjunar, vegna framkvæmda við Búðarhálsvirkjun, fram í september næstkomandi.

Ragna Sara Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, staðfestir þetta og segir að lántökunni hafi ekki verið hafnað hjá bankanum, eins og fram hefur komið í fréttum. Hún segir jafnframt að viðræður við Evrópska fjárfestingabankann séu enn í gangi um viðkomandi lánveitingu.

Hún vill ekki tjá sig um það að svo stöddu hvers var krafist gegn því að lánið yrði veitt eða hvers vegna lánveitingunni var frestað. „Við getum ekki greint sérstaklega frá viðræðum okkar og einstakra banka eða lánastofnana. Við viljum ekki tjá okkur um það á þessu stigi,“ segir Ragna Sara.

Viðskiptablaðið hefur það eftir ónafngreindum heimildarmönnum í dag að láninu hafi verið hafnað og að ástæðan sé sú að ekki hafi enn fengist botn í Icesavedeilu Íslendinga við Hollendinga og Breta.

Evrópski fjárfestingabankinn er í eigu ríkja Evrópusambandsins og í yfirstjórn hans sitja meðal annarra fjármálaráðherrar Bretlands og Hollands. Viðskiptablaðið hefur það eftir heimildum að stjórnin hafi ekki verið einhuga um ákvörðun sína, á fundi sínum í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert