Notalegt að heyra í þyrlunni

Henning Jóhannesson, sjómaður og útgerðarmaður í Grímsey.
Henning Jóhannesson, sjómaður og útgerðarmaður í Grímsey. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Kvalirnar voru helvíti miklar en ég fékk mikið af verkalyfjum á meðan ég beið og svo morfín beint í æð eftir að þyrlan kom,“ segir Henning Jóhannesson, sjómaður og útgerðarmaður í Grímsey, í samtali við Morgunblaðið, en hann beið sárþjáður klukkustundum saman eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á dögunum.

Það var að kvöldi mánudagsins 16. ágúst sem Henning missti fótanna þar sem hann var á leið ofan í bát sinn í Grímseyjarhöfn og skall með bakið á fiskikari á dekkinu.

Henning var slæmur í bakinu fyrir; með brjósklos, þannig að líðanin var töluvert verri eftir fallið en undir venjulegum kringumstæðum. Hann brotnaði ekki en bein brákaðist og vöðvi slitnaði.

Þykk þoka lá yfir Grímsey þetta kvöld og flugleiðina var einungis fært með þyrlu eða Twin Otter – sem mögulegt er að fljúga hægar en öðrum litlum vélum, og sæta lagi ef „gat“ myndast í þokuna. Svo slæmt var í sjóinn að ekki var hægt að sigla með Henning í land.

Þannig vildi til að áhöfn á Twin Otter vél Norlandair á Akureyri var ekki tiltæk og aðeins ein þyrluáhöfn er á vakt hjá Gæslunni. Tvö útköll komu á svipuðum tíma, auk slyssins í Grímsey fékk maður heilablóðfall í Öræfum og læknir Gæslunnar varð því að meta ástandið eftir upplýsingum fólks á stöðunum.

Hvorki læknir né hjúkrunarfræðingur eru staðsettir í Grímsey. Henning var borinn á börum heim til sonar síns „og þar beið ég á gólfinu þar til Gæslan kom,“ sagði Henning í gær.

Hátt í átta klukkustundir liðu frá því hringt var úr Grímsey í Neyðarlínuna þar til þyrlan lenti. „Ég var svo slæmur að þeir færðu mig ekki einu sinni af börunum sem ég var á heldur settu mig á þeim um borð.“

Einni og hálfri klukkustund síðar komu þeir Henning til Reykjavíkur.

„Biðin var löng og hefði gjarnan mátt vera styttri. En það var virkilega notaleg tilfinning að heyra í þyrlunni þegar hún kom.“„Í svona tilfellum kemur vel í ljós hve við sjómenn höfum mikla þörf fyrir þyrluna. Ástandið er dálítið annað en þegar þyrlan var staðsett á Akureyri,“ segir Henning Jóhannesson í Grímsey.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert