Færeyingar íhaldssamir

Heini Reinert fer fyrir samtökum guðleysingja í Færeyjum.
Heini Reinert fer fyrir samtökum guðleysingja í Færeyjum.

Þótt Færeyingar séu almennt íhaldssamir skipar Jenis av Rana, þingmaður Miðflokksins, sér í flokk með fámennum hópi öfgamanna í afstöðunni til samkynhneigðra og hjónabanda þeirra. Þetta er skoðun Heini Reinert, formanns félags guðleysingja í Færeyjum, sem ræddi málið við Morgunblaðið í kvöld.

Tilefnið er sú ákvörðun Jenis að sitja ekki kvöldverðarboð með Jóhönnu Sigurðardóttur í kvöld, ákvörðun sem rakin er til andstöðu hans við hjónabönd samkynhneigðra.

Samtökin sem Reinert fer fyrir heita Gudloysi á færeysku en skammt er síðan hann lenti í ritdeilu við Jenis vegna ólíkrar afstöðu til trúarbragða.

„Ég myndi segja að Jenis sé í miklum minnihluta með þessa skoðun sína. Almennt erum við í samtökunum á öndverðum meiði við það sem hann stendur fyrir og þetta mál er engin undantekning þar á.“

Engar kannair til að styðjast við 

Aðspurður hversu margir Færeyingar séu skoðanabræður Jenis svarar Reinert því til að því miður hafi ekki verið gerðar neinar skoðanakannanir til sem styðjast megi við í þessu efni. Því láti hann ógert að setja fram tölur út í loftið hvað þetta varðar.

„Það væri góð hugmynd að láta framkvæma slíka könnun,“ segir Reinert.

Málefni samkynhneigðra hafa þótt í talsverðum ólestri í Færeyjum og segir Reinert aðspurður að unga kynslóðin sé mun frjálslyndari í þeim efnum en þeir sem eldri eru. Sömu sögu megi segja í trúmálum almennt.

„Fyrir hönd Færeyinga skammast ég mín fyrir Jenis. Ég vona að Íslendingar geri sér grein fyrir að hann sé ekki dæmigerður fyrri Færeyinga.“

Nefna má að skammt er síðan færeyski trúarleiðtoginn Imme Dam mótmælti tónleikum Eltons John í Færeyjum með þeim rökum að þar færi verkfæri djöfulsins.

Dam varð hins vegar ekki að ósk sinni því breska poppgoðið tróð upp í Þórshöfn við góðar undirtektir.

Trúarleiðtoginn Imme Dam mótmælti tónleikum Eltons Johns í Færeyjum, enda …
Trúarleiðtoginn Imme Dam mótmælti tónleikum Eltons Johns í Færeyjum, enda væri þar á ferð verkfæri djöfulsins. Söngvarinn er sem kunnugt er samkynhneigður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert