Reynir á ákvæði stjórnarskrár

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, ræðir við aðra þingmenn á Alþingi …
Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, ræðir við aðra þingmenn á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Róbert Spanó, prófessor í lögum, segir að ef gefnar verða út ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum muni reyna á að hvaða marki 17. gr. stjórnarskrárinnar hefur að geyma fortakslausa skyldu ráðherra til sinna því að mikilvæg stjórnarmálefni séu rædd í ríkisstjórninni.

Róbert er einn þeirra sérfræðinga sem kom fyrir þingmannanefndina, en meirihluti hennar leggur til að fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde verði ákærðir. Róbert ræddi þessi mál í fréttatíma Sjónvarpsins í kvöld.

„Það sem mun reyna á ef þessar kærur verða gefnar út er að hvaða marki 17. gr. stjórnarskrárinnar hefur að geyma fortakslausa skyldu ráðherra til að sinna því að mikilvæg stjórnarmálefni séu rædd í ríkisstjórn.

Það er ljóst að það verklag hefur myndast að ýmis mikilvæg málefni eru einungis rædd á pólitískum vettvangi leiðtoga ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Það er væntanlega það álitamál sem mun reyna á ef kærurnar eru samþykktar, að hvaða marki 17. greinin er sjálfstætt ákvæði og þá hvort 8. gr. c [í lögum um ráðherraábyrgð] sé brotin með því að mikilvægt stjórnarmálefni er ekki borið undir ríkisstjórnina,“ sagði Róbert í fréttum Sjónvarpsins. 

Í þingsályktunartillögu meirihluta nefndarinnar eru ráðherrarnir taldir hafa brotið tvær greinar laga um ráðherraábyrgð.

Í 19. gr. b-lið segir að ráðherra skuli teljast sekur eftir lögunum „ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.“

Í 8. gr. b-lið segir að ráðherra sé ábyrgur gagnvart lögum „ef hann annars framkvæmir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, eða lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem þar er fyrirskipað eða veldur því, að framkvæmd þess farist fyrir.“

Róbert segir að þarna sé þingmannanefndin að vísa til 17. gr. stjórnarskrárinnar, en í henni segir: „Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni.“

Í ákæruskjali meirihluta þingmannanefndarinnar eru talin upp nokkur málefni sem talið er að ráðherrarnir hefðu átt að bregðast við. Þar má m.a. nefna að hafa ekki með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum reynt að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins, að hafa ekki stuðlað að því að bankarnir minnkuðu sinn efnahag og að hafa ekki beitt sér með virkum hætti fyrir því að Icesave-reikningarnir í Bretlandi yrðu færðir yfir í dótturfélög.

Róbert Spanó lagaprófesor.
Róbert Spanó lagaprófesor.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert