Krefst opinberrar rannsóknar

Frá Borgarfirði eystra.
Frá Borgarfirði eystra. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Fiskverkun Karls Sveinssonar á Borgarfirði eystra hefur sagt upp öllum starfsmönnum sínum. Fiskverkunin er stærsti vinnuveitandinn á staðnum, þar starfa 15-20 manns. Eigandi fyrirtækisins hefur ákveðið að óska eftir opinberri rannsókn á starfsháttum Matvælastofnunar.

Ástæður uppsagnanna eru óvissa með verkefni en Karl hætti saltfiskverkun eftir að flestir framleiðendur hófu að sprauta hvítunarefnum í fiskinn. Karl vildi ekki tjá sig um málið í dag en vísaði á tilkynningu sem hann birti á vef Ríkisútvarpsins.

Í tilkynningunni kemur fram að fyrirtækið hafi tapað hundruðum milljóna króna vegna aðgerðaleysis Matvælastofnunar í þessu máli. Hann hefur ákveðið að kvarta til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá fer hann fram á það við ríkislögreglustjóra að fram fari opinber rannsókn á starfsháttum starfsmanna Matvælastofnunar í þessu máli, ekki síst vegna þráláts orðróms um að starfsmönnum stofnunarinnar sé stjórnað af stærstu saltfiskframleiðendum landsins.

Tilkynning Karls er svohljóðandi:

Tilkynning frá Karli Sveinssyni:

„Ég hóf fiskverkun árið 1986 og seldi til SÍF sem var með einkleyfi á saltfisksölu fram á tíunda áratuginn. Eftir að útflutningur var gefinn frjáls var mikil samkeppni meðal útflytjenda um að fá besta saltfiskinn og var ég í hópi þeirra 5 bestu. Framleiðslan var 200-300 tonn á ári eða um 0,5% af heildarframleiðslu landsins. Þrátt fyrir lítið magn var fiskurinn minn eftirsóttur einkum á Katalóníu á Spáni sem gaf hæsta verðið. Varla leið sú vika að útflytjendur hefðu ekki samband og báðu um að fá að selja fiskinn og var ég að fá hæsta verðið.

Upp úr aldamótum fór að bera á notkun fjölfosfata við vinnsluna. Efninu sem kallað er karnal er sprautað í fiskinn sem gerir hann óeðlilega hvítan og veldur því að hann heldur allt að 10% meira vatni í sér. Þessi fiskur fór að keppa við minn fisk sem var framleiddur á hefðbundinn hátt.

Þrátt fyrir að í reglugerð númar 285 frá 25. mars 2002 sé kveðið um að efnin séu óheimil í saltfiski og að skylt sé að merkja aukaefni á umbúðin séu þau notuð. Eftir því sem árin liðu jókst notkunin og prófaði ég að nota efnið í pækil í smá tíma en í ljós koma að efnið hefur ekki áhrif nema því sé sprautað inn í holdið. Fiskurinn varð illseljanlegur nema með verulegum afslætti.

Í október 2008 keyrði um þverbak og var ein sending verðfelld um 1,5 milljónir króna því fiskurinn var ekki sprautusaltaður með þessu efni. Eftir það gafst ég endanlega upp og hef ég ekki saltað fisk til útflutnings í eitt og hálft ár.

Frá árinu 2005 hef ég ítrekað kvartað til starfsmanna Matvælastofnunar yfir aðgerðaleysi þeirra í þessum efnum. Um áramótin 2008-2009 kom starfmaður hingað á Borgarfjörð og tjái ég honum að þolinmæðin væri þrotin og ef þeir gerðu ekkert færi ég með málið í fjölmiðla. Ekkert gerðist fyrr en í maí 2009. Þá var öllum framleiðendum gefinn kostur á að koma þessu málum í lag og frestur gefinn til 1. september 2009 samkvæmt bréfi dagsettu 28. maí 2009. Síðan hefur ekkert gerst þrátt fyrir að stafmenn skoðunarstofa hafi sett efnanotkun á skoðunarskýrslur sem sendar eru til Matvælastofnunar.

Tekjutap vegna aðgerðarleysis stofnunarinnar nemur hundruðum milljóna króna. Því hef ég ákveðið að kvarta til ESA Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá fer ég fram á það við ríkislögreglustjóra að fram fari opinber rannsókn á starfsháttum starfsmanna Matvælastofnunar í þessu máli. Ekki síst vegna þráláts orðróms um að starfsmönnum stofnunarinnar sé stjórnað af stærstu saltfiskframleiðendum þessa lands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert