Miðaldaböð stranda á vatnsskorti

Miðaldaböðin Snorralindir verða byggð utan í hæðinni, ofan við Deildartunguhver …
Miðaldaböðin Snorralindir verða byggð utan í hæðinni, ofan við Deildartunguhver í Reykholtsdal. Þau eru teiknuð inn á ljósmynd sem tekin er af planinu við hverinn.

Hugmyndir um að reisa miðaldaböð við Deildartunguhver í Reykholtsdal stranda á því að ekki er fyrir hendi nægilega mikið vatn fyrir böðin. Þeir sem vinna að verkefninu hafa treyst á að Orkuveita Reykjavíkur geti útvegað nægilega mikið vatn fyrir böðin, en óljóst er hvort það gengur eftir.

Kjartan Ragnarsson, hjá Landnámssetrinu í Borgarnesi, sagði að búið væri að vinna að þessu verkefni í tvö ár. Undirbúningur hefði gengið vel. Deildartunguhver er vatnmesti hver í heimi og er áhugi ferðamanna á honum mikill. Kjartan sagði að um 80 þúsund manns kæmu til að skoða hverinn á hverju ári, en þar væri ekkert við að vera. 

„Okkur dreymir um að byggja þarna náttúruböð í anda Bláa lónsins eða jarðbaðanna við Mývatn. Sérstaða okkar hugmyndar er að við ætlum að tengja þetta miðaldabaðmenningunni eins og laug Snorra Sturlusonar, Grettislaug og Guðrúnarlaug í Dölunum. Við verðum með minni í þessa baðmenningu.“

Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt, sem hannaði Bláa lónið, hefur unnið frumteikningar að Miðaldaböðunum. Fjárfestar hafa sýnt áhuga á að taka þátt í verkefninu og vann Sigríður meira í teikningunum eftir að þeir komu að málinu. Búið er að endurskoða viðskiptaáætlun tvívegis og Kjartan sagði að hún liti vel út.

„Þetta lítur allt mjög vel út, en vandamálið er að Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki mikla burði til að útvega það vatn sem við þurfum. Þegar við byrjuðum að þreifa fyrir okkur með þessa hugmynd var þetta eitt öflugasta fyrirtæki landsins. Núna er staðan önnur,“ sagði Kjartan.

Kjartan sagði miðaldabaðið sem vonast væri eftir að yrði að veruleika við Deildartunguhver þyrfti talsvert mikið af vatni. Sá möguleiki hefur verið ræddur að virkja Kleppjárnsreykjahver sem er þar í nokkurra kílómetra fjarlægð, en það kostaði peninga.

Deildartunguhver fullnýttur


Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, sagði að eini nýtingarréttur Orkuveitunnar á heitu vatni á svæðinu væri úr Deildartunguhver. „Hann er fullnýttur. OR hefur verið að leita hófanna með aukið heitt vatn til að veita grunnþjónustu á Vesturlandi, þ.á.m. frá Kleppjárnsreykjum. Það hefur ekki borið árangur.“

Eiríkur sagði að OR væri að einbeita sér að sérleyfisskyldum fyrirtækisins. Miðaldaböðin hefðu viðrað ýmsar hugmyndir við OR um samstarf og hefði OR verið fúst til þess enda verði hagsmunir grunnþjónustunnar tryggð.

Deildartunguhver hitar upp hús á Akranesi, Borgarnesi og hluta af dreifbýli á svæðinu. Vatnið er að stærstum hluti sjálfrennsli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert