Vilja þak á verðbætur

Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Heddi

Hagsmunasamtök heimilanna vilja að höfuðstóll verðtryggðra lána verði stilltur á stöðu höfuðstóls lánanna eins og hann var í árslok 2007. Frá þeim tíma verði sett þak á árlegar verðbætur. Þetta er meðal tillagna sem samtökin kynntu í dag.

Hagsmunasamtökin segja að þetta þak geti hæst jafngilt efri vikmörkum verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands, eins og þau voru frá apríl 2001, það er 4,0% á ári. Þannig leiðrétt lán ættu að mati Hagsmunasamtaka heimilanna að vera viðráðanleg fyrir flesta lántaka. Samtökin vilja að það sem eftir standi verði afskrifað án þess að skattur sé lagður á afskriftir.

Samtökin krefjast þess að höfuðstóli gengisbundinna húsnæðislána verði breytt í verðtryggt krónulán miðað við stöðu þeirra í lok árs 2007. Skilmálar lánanna taki mið af lægstu vöxtum Seðlabankans af verðtryggðum lánum eða lægstu vöxtum viðkomandi lánveitanda.

Hagsmunasamtökin vilja gera veigamiklar breytingar á húsnæðiskerfinu.  Þau vilja að 4% þak verði sett á árlegar verðbætur verðtryggðra húsnæðislána, sem lækki þar til verðtrygging húsnæðislána verður afnumin. 5-6% hámark verði sett á óverðtryggða vexti húsnæðislána og samið verði í 3-5 ár í senn.

Samtökin benda á að hrun varð í hagkerfinu vegna háttsemi fjármálafyrirtækja, hagstjórnarmistaka og rangra pólitískra ákvarðana. Í undanfara hrunsins og samhliða því hafi skulda- og greiðslubyrði heimilanna aukist mjög mikið. Samtökin telja óeðlilegt að lántakar eigi að bera þann kostnað meðan fjármálafyrirtæki eiga að hafa tekjur af háttsemi sinni og forvera sinna.

Hagsmunasamtökin benda á að á þriðja þúsund beiðnir séu núna komnir í nauðungasöluferli. Um 1.500 íbúðir séu í eigu fjármálafyrirtækja. Um 40 þúsund fjölskyldur eigi ekki fyrir óvæntum útgjöldum. Þá hafi 18.000 manns flutt af landi brott á síðustu tveimur árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert