„Stór stund fyrir okkur sem eigum rætur fyrir vestan“

Forseti Íslands, fyrrverandi og núverandi samgönguráðherrar, Vegamálastjóri og bæjarstjórar Bolungarvíkur …
Forseti Íslands, fyrrverandi og núverandi samgönguráðherrar, Vegamálastjóri og bæjarstjórar Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar við gangamunnann. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók þátt í hátíðarhöldunum með Bolvíkingum og öðrum Vestfirðingum í dag. Ólafur var viðstaddur vígslu Bolungarvíkurganganna og tók til máls í hátíðardagskrá sem haldin var í íþróttamiðstöðinni í Bolungarvík.

Ólafur tjáði mbl.is að hann hafi lengi stefnt að því að vera viðstaddur þegar göngin yrðu opnuð.

„Ég og Kristján L. Möller ræddum um það fyrir löngu síðan að þetta væri stór stund fyrir okkur öll sem eigum rætur hér fyrir vestan. Þess vegna er það mér mikið gleðiefni að vera hér í allan dag og taka þátt í þessum fjölþættu hátíðahöldum. Þetta skiptir líka miklu máli fyrir þjóðina, vegna þess að þrátt fyrir að byggðalögin séu aðskilin, þá erum við samt sem áður ein þjóð.  Þá er áríðandi að allir íbúar landsins byggða finni að þeir eru hluti af þjóð sem lætur sér annt um framtíð þeirra og leggur af mörkum fjármagn til þess að ryðja nýjar brautir í samgöngum. Þó stundum sé verið að gagnrýna slíkar framkvæmdir, sérstaklega af þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þá megum við ekki gleyma því, að það er kannski atvinnulíf landsbyggðarinnar sem er sá burðarás sem ekki brestur þrátt fyrir að áföllin hafi verið mikil. Það sjáum við á þessum síðustu tveimur árum,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við mbl.is í Bolungarvík í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert