Fréttaskýring: 30 milljarða niðurskurður í fjárlögum 2011

Steingrímur J. Sigfússon leggur fram fjárlagafrumvarpið.
Steingrímur J. Sigfússon leggur fram fjárlagafrumvarpið. mbl.is/Ernir

Fjárlagafrumvarpið sem kynnt verður á þriðjudaginn gerir ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði skorin niður um 30 milljarða og skattahækkun skili um 10 milljörðum í auknar tekjur í ríkissjóð. Miðað er við að útgjöld til velferðarmála verði lækkuð um 6% og 9% til annarra mála.

Ríkisstjórnin vinnur eftir áætlun sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn án halla árið 2012 og umtalsverðum afgangi árið 2013. Fjárlög fyrir þetta ár gera ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði verði 99 milljarðar. Samkvæmt áætlun sem lögð var fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir ári var miðað við að hallinn á ríkissjóði á árinu 2011 yrði 23 milljarðar. Það skýrist á þriðjudaginn hvort ríkisstjórnin ætlar að halda sig við þá áætlun.

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir árin 2009-2013 er unnin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Áætlunin gerir ráð fyrir að svokallaður frumjöfnuður í ríkisfjármálum, þ.e. jöfnuður án vaxtatekna og vaxtagjalda, verði orðinn jákvæður árið 2011. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á fundi Samtaka atvinnulífsins um skattamál í síðustu viku að áætlað væri að hallinn á frumjöfnuði yrði 2,2% á þessu ári. Ljóst er að við gerð fjárlaga í ár verður lögð mikil áhersla á að þessi tala verði jákvæð á næsta ári.

Tekjur í samræmi við áætlun

Afkoma ríkissjóðs á þessu ári hefur að sjálfsögðu áhrif á fjárlagavinnuna vegna ársins 2011. Samkvæmt yfirliti fjármálaráðuneytisins eru tekjur ríkissjóðs á fyrstu sjö mánuðum ársins nokkurn veginn á áætlun. Tekjuskattur einstaklinga skilaði 5,8% minni fjármunum í ríkissjóð en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun. Þetta gerist þrátt fyrir að atvinnuleysi sé heldur minna en áætlað var. Tekjur af bensíni, olíu, áfengi og tóbaki eru einnig undir tekjuáætlun. Á móti kemur að tekjur af virðisaukaskatti 9,4% eru meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Almennt efnahagsumhverfi skiptir miklu máli fyrir ríkissjóð. Nýjasta þjóðhagsspá Seðlabankans bendir til að þróunin sé ekki að öllu leyti eins hagstæð og vonast var eftir. Þar skiptir mestu máli að spáð er að verg landsframleiðsla á þessu og næsta ári verði minni en síðasta spá gerði ráð fyrir. Spáð er að einkaneysla vaxi aðeins um 0,5% á þessu ári, en ekki um 1,1% eins og fyrri spá gerði ráð fyrir. Hins vegar spáir Seðlabankinn að einkaneysla 2011vaxi um 3,3%, heldur meira en í fyrri spá.

Útgjöld undir áætlun
» Útgjöld ríkissjóðs á þessu ári á fyrstu sjö mánuðum ársins eru 6,6% undir áætlun. Þar munar mest um að ekki hefur verið ráðist í fjárfestingar í vegagerð og fleiri málum eins og heimildir eru fyrir.
» Samkvæmt fjárlögum verða vaxtagjöld ríkissjóðs á þessu ári 94 milljarðar, en horfur eru á að þau fari upp fyrir 100 milljarða á næsta ári.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert