Þægileg lausn fyrir Samfylkinguna

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir.

Það er þægileg lausn fyrir Samfylkinguna og ríkisstjórnina að ákveða að höfða mál gegn Geir H. Haarde fyrir landsdómi segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. Þar með sé einn fleygur horfinn úr ríkisstjórnarsamstarfinu.

„Þetta mál hefur verið pólitískt frá upphafi og niðurstaðan er pólitísk. Hún byggir á pólitísku mati á því hvað hafi farið aflaga í þjóðfélaginu,“ segir Stefnía.

Nú komi til kasta landsdóms í máli þar sem pólitískt mat muni ekki liggja til grundvallar heldur lögfræðilegt. Þar muni Geir geta komið fram vörnum.

„Það mun ýmsilegt koma á daginn í þeim málaferlum sem gætu skýrt hvað raunverulega gerðist fyrir hrun. Það gæti verið jákvæð aukaafurð af þessu.“ 

Hún segir þessar málalyktir vera ágæta niðurstöðu fyrir Samfylkinguna. Nú sé hægt að segja að höfuð ríkisstjórnarinnar sem var við völd fyrir hrunið muni svara til saka en á sama tíma verði ráðherrar flokksins ekki sóttir til saka.

Þar með sé einn fleygurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu horfinn. Menn geti sagt að málinu sé nú lokið og stjórnin geti snúið sér að öðrum málum. Stefanía segir þó að málið muni halda áfram og muni hafa eftirmála á mörgum vígstöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert