„Gátum ekki setið undir þessu“

Landsþingið fer fram í menningarhúsinu Hofi.
Landsþingið fer fram í menningarhúsinu Hofi. mbl.is/Skapti

Nokkrir fulltrúar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fer nú fram á Akureyri, yfirgáfu fundarsalinn þegar Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði gesti fyrr í dag. Mörgum þótti það óviðeigandi að hann skyldi hefja mál sitt á því að ræða landsdóm og ákæruna á hendur Geir H. Haarde.

„Við vorum nokkur þarna sem gátum ekki setið undir þessu,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Hún segir að ummæli Ögmundar hafi verið óviðeigandi og að fleiri séu þeirrar skoðunar. Ögmundur hafi m.a. sagt að Geir væri drengur góður en að menn mættu ekki líta á ákæruna sem persónulegt dómsmál, heldur væri um að ræða ákæru á hendur ráðherra.

Ögmundur hafi líkt þessu við umferðarlagabrot og sagt að menn ættu ekki að taka því persónulega fengju þeir sekt, því málið snerist um reglur.

„Það vita allir menn að þetta er persónulegt [...] og hápólitískt,“ segir Þorbjörg Helga og bætir við að Ögmundur hefði betur átt að sleppa þessari umræðu og einbeita sér að sveitastjórnarmálum í ávarpi sínu.

„Hann hefur mál sitt á þessu og gekk fullkomlega yfir strikið. Það er ennþá mikil reiði í salnum,“ segir Þorbjörg Helga og bætir við að það hafi ekki bara verið fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem hafi gengið út.

Margir hafi undrast að Ögmundur skyldi hafa ákveðið að ræða þetta hitamál á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Talið er að hátt í 30 fundargestir hafi yfirgefið fundarsalinn.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert