Engin formleg tengsl

Mark Flanagan.
Mark Flanagan. Eggert Jóhannesson

„Það hafa engin formleg tengsl verið milli Icesave-málsins og þess að ljúka endurskoðunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi,“ segir Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Á símafundi með blaðamönnum fyrr í dag sagði Mark Flanagan að íslenska ríkisstjórnin hafi sýnt mikinn vilja í þá veru að leysa málið. „Ljóst að með þremur endurskoðunum á áætlun sjóðsins án þess að Icesave-málið hafi fengið endanlega lausn, þá er tenging þessara tveggja mála ekki jafnmikil og margir hafa haldið fram. En ég hef samt skilning á því hvers vegna fólk hefur haldið því fram. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stofnun með framkvæmdastjórn þar sem ákveðið atkvæðavægi er, þar á meðal eru auðvitað Bretland og Holland,“ sagði Flanagan.

Hann segir að íslenska ríkisstjórnin hafi lengi haldið því fram að vilji sé fyrir hendi að leysa málið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur því skuldbindingar vegna Icesave inn í sínar hagspár, vegna þess vilja ríkisstjórnarinnar. Flanagan sagði að í því fælist engin dómur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hvort íslenska ríkið sé ábyrgt fyrir greiðslu á Icesave-skuldum.

„Sjóðurinn hefur enga skoðun á því, hvort um er að ræða skuld með ábyrgð ríkisins eða ekki,“ sagði Flanagan. „Eina afstaðan sem við [AGS] hefur tekið er sú afstaða sem ríkisstjórnin hefur tekið. Það er að segja; við munum ná sáttum í þessu máli,“ sagði Flanagan: „Ég er ekki sérfræðingur í Evrópurétti og er ekki ætlað að taka afstöðu í þessu máli.“

Fram kemur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál, að íslensk stjórnvöld hafi tilkynnt sjóðnum, að umtalsverður árangur hafi orðið í viðræðum Íslendinga, Breta og Hollendinga um lausn á Icesave-deilunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert