Höfða skaðabótamál gegn Byr

BYR sparisjóður.
BYR sparisjóður. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Þarna áttu sér stað hlutir sem eru hreinlega skaðabótaskyldir. Það var farið inn í eignir sjóðsins og þeim rænt. Þeim var rænt. Ýmsar lánveitingar og gjörningar sem þarna áttu sér stað gátu ekki gert annað en að skaða sjóðinn,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, formaður félags stofnfjáreigenda í Byr.

Félagið efndi til fundar í kvöld í tilefni þess að frestur til að skila inn kröfulýsingu í þrotabú Byrs rennur út á miðvikudag en Sveinn Margeirsson verkfræðingur kynnti félagsmönnum í kvöld hvernig beri að skila inn kröfulýsingu. Nýtur hann aðstoðar lögmanna í því verki. 

Fall bankans var ekki slys

„Þetta var ekki slys,“ segir Vilhjálmur og nefnir lánveitingar til Exeter Holding sem dæmi.

„Ég fór yfir hvernig verið er að leita leiða fyrir hluthafa til að leggja fram skaðabótakröfu vegna gjörða hluthafa stjórnarmanna og stjórnenda og lagði við það áherslu á að það yrði að vanda sig við þá kröfugerð.“

Skaðabótaskyldar ákvarðanir

- Hvers vegna viltu leggja fram skaðabótakröfu?

„Vegna þess að þarna áttu sér stað atburðir sem eru hreinlega skaðabótaskyldir. Það var farið inn í eignir sjóðsins og þeim rænt. Þeim var rænt. Þetta er ekki flóknara. Ýmsar lánveitingar og gjörningar sem þarna áttu sér stað gátu ekki gert annað en að skaða sjóðinn. Þetta var ekki slys. Þetta var röð atburða sem leiddi til þess að sjóðurinn féll og margt af því er hreint misferli, eins og því er lýst fyrir mér.“

- Hvers vegna sköðuðu þessar ákvarðanir sparisjóðinn?

„Það dugar að nefna það sem liggur þegar fyrir, nefnilega Exeter Holding. Hinar svokölluðu lánveitingar til félagsins eru bara fjárdráttur og umboðssvik. Það var tekið af fjármunum sjóðsins og þeir notaðir til að greiða út skuldir þessara tilteknu aðila hjá MP Banka. Þá ber að nefna ýmsar óvarlegar lánveitingar,“ segir Vilhjálmur sem býst við því að málaferlin geti tekið nokkur ár.

Merki sparisjóðsins Byrs.
Merki sparisjóðsins Byrs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert