„Þau bara keyrðu ofan í holu“

Það eru engar ýkjur að segja að vegurinn í Kjálkafirði …
Það eru engar ýkjur að segja að vegurinn í Kjálkafirði sé holóttur. Þessi mynd var tekin þar í gær. mynd/Sigrún Davíðsdóttir

„Þau bara keyrðu ofan í holu og við það kom högg á bílinn sem varð til þess að loftpúðinn sprakk út,“ segir Sigrún Davíðsdóttir, en dóttir hennar og tengdasonur urðu fyrir því um helgina, að loftpúði sprakk út á bíl þeirra þegar þau óku um holóttan veg á Barðaströnd.

„Sem betur fer gerðist þetta farþegamegin, en ekki bílstjóramegin því þá hefðu þau getað stórslasast. Dóttir mín var í farþegasætinu og það sér á henni eftir að loftpúðann. Hún er aum og marin á handlegg og læri þar sem púðinn skall á henni,“ sagði Sigrún.

Þegar loftpúði springur drepst á bílnum og ekki er hægt að koma honum í gang nema með því að tengja framhjá. Maður Sigrúnar fór á öðrum bíl og aðstoðaði dóttur sína við að komast áfram.

Haft var samband við lögregluna á Patreksfirði til þess að gera skýrslu um málið, en talsverður kostnaður fylgir svona óhappi. Sigrún sagði að lögreglan hefði gefið þau svör að ökumaður yrði að koma til Patreksfjarðar til að gefa skýrslu. Það leist fjölskyldunni ekki á því að hún hafði ekki áhuga á að aka áfram langa leið eftir þessum holótta vegi til að gefa skýrslu, en um 25 km er frá þeim stað þar sem óhappið átti sér stað að malbikuðum vegi og þaðan er líklega um 70 km til Patreksfjarðar. Þau spurðu hvort hægt væri að gefa skýrslu hjá lögreglunni í Stykkishólmi og fengu þau svör að það ætti að vera í lagi, en þegar þangað var komið fengust þau þær upplýsingar að þar sem atvikið hefði átt sér stað á Barðaströnd væri það í verkahring lögreglunnar á Patreksfirði að afgreiða málið.

„Ég veit að þetta er ekki í fyrsta skipti sem það verður tjón á bílum á þessum vegi. Við höfum ekið fram á bíla í sumar og haust sem hafa misst undan sér pústkerfi. Ég skil ekki í Vestfirðingum að láta bjóða sér þetta,“ sagði Sigrún, en hún og fjölskylda hennar eiga sumarbústað á Barðaströndinni.

Sigrún sagði að hún hefði frétt af því í dag að byrjað væri að hefla veginn þar sem óhappið átti sér stað.

Athugasemd sett inn kl.21:02: Að sögn lögreglunnar á Stykkishólmi var fólkinu bent á að gefa skýrslu í Reykjavík, þar sem ferðinni var heitið suður, en hún tók það skýrt fram að ef innt væri sérstaklega eftir því að klára málið á Stykkishólmi væri sá möguleiki fyrir hendi. Aldrei hafi það komið til tals að málið væri ekki í verkahring lögreglunnar. Hér var um misskilning að ræða og hefur viðmælandi staðfest það. Ökumaður bílsins staðfesti þessi ummæli lögreglu í samtali við mbl.is í kvöld.

Bíllinn er talsvert skemmdur eftir að loftpúðinn sprakk út.
Bíllinn er talsvert skemmdur eftir að loftpúðinn sprakk út.
Einn steinninn, sem stendur upp úr veginum í Kjálkafirði.
Einn steinninn, sem stendur upp úr veginum í Kjálkafirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert