„Þarna opnast alveg nýr heimur“

mbl.is/Frikki

Hægt er að fylgjast með ferðum hreindýra á vef Náttúrustofu Austurlands (NA), en dýrin eru öll með GPS-senditæki á sér sem senda daglega frá sér staðsetningar. Alls voru 12 tæki sett á jafnmörg hreindýr í þeim tilgangi að rannsaka hagagöngu þeirra.

„Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hversu gríðarlegar upplýsingar safnast þarna. Og hvað verður hægt að vinna mikið úr þeim,“ segir Skarphéðinn G. Þórisson, starfsmaður Náttúrustofu Austurlands sem er í forsvari fyrir verkefninu sem hófst í árslok 2008.

Um er að ræða meistaraverkefni Skarphéðins við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Hann segir að NA og Landbúnaðarháskólinn hafi fengið styrk frá Rannís til að kaupa 15 GPS-tæki, og 12 þeirra hafi verið sett á dýrin í í ársbyrjun 2009.

„Það opnast þarna alveg nýr heimur fyrir okkur. Hvernig dýrin haga sér, hvaða land þau nýta og hvert þau fara,“ segir hann. Í framhaldinu verði upplýsingarnar nýttar til að skipuleggja nýtingu stofnsins. Ekki einvörðungu varðandi hversu mörg dýr megi skjóta og hvar og hvenær, heldur einnig hvernig eigi að útdeila arði til landeigenda. Enda byggir arðurinn að hluta til á því hvar dýrin ganga.

Hengd voru staðsetningartæki á Snæfellshjörðina sem gengur á hásléttunni inn af Fljótsdal og Álftafjarðarhjörðina, sem heldur sig til við samnefndan fjörð og nærliggjandi svæði.

Hann bendir á að það hafi ekki gengið nægilega vel að ná dýrunum á fjörðunum og því hafi rannsóknin einskorðast meira eða minna við Snæfellshjörðina.

Fjórar kýr senda daglega

Sem fyrr segir voru upphaflega hengd 12 tæki á jafnmargar kýr. Hluti tækjanna hafa hins vegar þagnað, þar sem rafhlaðan í tækjunum endist aðeins í takmarkaðan tíma.

„Í dag eru fjórar kýr að senda daglega. Síðan er hún Stína, sem þagnaði 5. ágúst. Og ég hef ekki haft spurnir af henni síðan,“ segir Skarphéðinn. Hann vonast hins vegar að tækið haldi áfram að skrá upplýsingar þannig að þegar það verði sótt verði hægt að hlaða upplýsingunum niður í tölvu.

Hann bendir á að dýrin séu staðsett á þriggja klukkutímafresti, alls átta staðsetningar á dag, í eitt og hálft til tvö ár.

Algjör bylting

„Þetta er algjör bylting í sambandi við hagagönguna,“ segir Skarphéðinn varðandi þær upplýsingar sem tækin skrái. Þetta auðveldi mönnum mikið enda fjölmargt sem takmarki aðkomu manna að dýrunum.

Með aðstoð GPS-tækjanna sé jafnframt hægt að rannsaka orkueyðslu dýranna, þ.e. hvað þau hreyfi sig mikið. T.d. sé hægt að bera saman ferðir dýranna hreindýraveiðitímabilinu við önnur tímabil.

„Náttúrustofunni er lögum samkvæmt uppálagt að vakta hreindýrin. Við gerum líka tillögu um veiðikvóta sem byggir á hagagöngu þeirra, fjölda og hvar þau eru. Við þurfum ekki bara að vita hvað þau eru mörg til að geta ákvarðað veiðikvóta heldur líka hvernig það skiptist eftir svæðum. Síðan þurfum við líka að vakta áhrif framkvæmda mannsins á dýrin og þar kemur Landsvirkjun inn í þetta,“ segir hann, en Landsvirkjun greiðir hluta af kostnaði rannsóknarinnar, sem lýkur 2012.

Hægt er að fylgjast með ferðum dýranna á vef Náttúrustofu Austurlands.

Kynning á hagagöngu hreindýra.

Fylgst með ferðum kýrinnar Ánu. Nöfn dýranna tengjast þeim stöðum …
Fylgst með ferðum kýrinnar Ánu. Nöfn dýranna tengjast þeim stöðum þar sem þau náðust.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert