Fréttaskýring: Stóralvarlegir glæpir

Frá kvennaráðstefnunni í Háskólabíói í gær.
Frá kvennaráðstefnunni í Háskólabíói í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi kvenna, og þónokkrir karlar, sóttu alþjóðlega ráðstefnu um kynferðisofbeldi í Háskólabíói í gær. Ráðstefnan var haldin í tilefni af kvennafrídeginum og skipulögð af Skottunum, regnhlífarsamtökum kvennahreyfinga á Íslandi. Meðal fyrirlesara var Rashida Manjoo, umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna í ofbeldismálum gegn konum.

Hún lýsti embættinu fyrir ráðstefnugestum, tilskipun sinni og starfsháttum. Embættið aðstoðar ríki við að skilgreina og meta ofbeldi gagnvart konum á hverjum stað fyrir sig og rannsakar orsakir og hugsanlegar úrbætur. Samkvæmt skýrslum sem SÞ hafa unnið á síðustu 16 árum hafa komið fram skýr tengsl milli pólitískrar menningar og tíðni ofbeldis gegn konum og meiri nauðsyn sé á að breyta reglum.

Ekkert afsakar ofbeldi

Í máli Manjoo kom fram að ekki nægði fyrir ríki að samþykkja lög heldur þyrfti jafnframt að veita fjármagn til enduruppbyggingar á samfélagsstoðum sem hafi áhrif á ofbeldi gegn konum.

Þá hélt dómsmálaráðherra Noregs, Knut Storberget, einnig fyrirlestur um tengslanet karlkyns leiðtoga, Network of Men Leaders, en það er verkefni sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, setti á stofn fyrir réttu ári. Storberget sagði leiðtogana í tengslanetinu líta á ofbeldi gegn konum sem stóralvarlega glæpi og taka yrði á þeim sem slíkum. Einnig sagði hann nauðsynlegt að færa byrðina af fórnarlömbunum yfir á sökudólgana og samfélagið yrði að einblína á að loka þá úti, frekar en að loka fórnarlömbin inni þeim til „verndar“.

Sagði ráðherrann afstöðu norskra yfirvalda mjög skýra; engin trúarbrögð, menning eða hefðir gætu nokkurn tíma afsakað ofbeldi gegn konum. Þá lýsti hann til hvaða aðgerða norska lögreglan hefði gripið til að meðhöndla heimilisofbeldi gegn konum, m.a. hefði hvert lögregluumdæmi á að skipa ráðgjafa í heimilisofbeldi og þeir störfuðu saman við að safna upplýsingum um heimilisofbeldi í landinu og úrlausnum fyrir fórnarlömbin, bæði konur og börn.

Spurt um mansal og transfólk

Janice Raymond, bandarískur prófessor í kvennafræðum, hélt erindi um mansal og nauðsyn þess að stöðva eftirspurn eftir vændi. Raymond, sem er þekktur femínisti, hefur viðrað umdeildar skoðanir sínar á transkonum á prenti og hlotið talsverða gagnrýni fyrir. Að loknu erindi hennar í gær spurði einn gestanna hvort barátta Raymond gegn mansali einskorðaðist við konur og börn, eða hvort hún berðist fyrir aðra hópa líka, t.d. transfólk. Raymond svaraði skýrt og skorinort með einni setningu: „Ég er á móti mansali á öllum hópum, konum, börnum og transfólki.“ og ræddi málið ekki frekar.

Aðgerðirnar í dag einstakar

„Allt þetta fólk vildi endilega koma og finnst mjög spennandi að taka þátt í aðgerðunum á morgun. Það er eitthvað sem er svo einstakt á heimsvísu að bara það að tímasetja þessa ráðstefnu daginn fyrir þann dag er nóg til að hægt sé að fá hvern sem er, sem lætur sig jafnréttismál varða, til að koma,“ sagði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, í ráðstefnuhléi. „Hér er fólk sem hefur í áratugi látið að sér kveða í þessum málum og ég er ákaflega stolt af að hafa fengið hingað það fólk sem mér finnst eiga mest erindi við okkur hér á Íslandi.“ Rashida Manjoo sagði m.a. frá því að hún hefði tekið daginn frá fyrir ári. Hins vegar hefði framkvæmdastjórn SÞ kallað eftir fundi í New York í vikunni en Manjoo verið svo í mun að tala á ráðstefnunni að hún hefði fengið undanþágu og látið Ísland ganga fyrir Sameinuðu þjóðunum.

„Málefni alls mannkyns, í dag og á morgun“

Vigdís Finnbogadóttir, verndari Skottanna, setti ráðstefnuna í Háskólabíói í gær með stuttu ávarpi. Þar rakti hún sögu kvennafrídagsins og rifjaði upp 24. október 1975 á Íslandi, þegar þjóðfélagið nánast lamaðist þegar konur lögðu niður störf. Sagði hún að kvennafrídagurinn hefði sennilega átt sinn þátt í því að hún var kosin til embættis forseta Íslands fimm árum síðar, fyrst kvenna.

Fjöldi fyrirlesara tók til máls á ráðstefnunni, frá átta þjóðlöndum, og var fjallað um allt frá baráttunni gegn mansali og vændi til áhugaverðra verkefna sem stuðla að því að fræða og virkja unga karlmenn til að breyta hugsunarhætti og afstöðu sinni til kvenna. Þá var sagt frá rannsóknum á vændi og mansali í Afríku og Suður-Ameríku og brýnni þörf fyrir þátttöku alþjóðasamfélagsins í að aðstoða einstök heimssvæði í baráttunni gegn ofbeldi á konum.

Hver fyrirlesari var leystur út með gjöfum frá Skottunum. Fengu konurnar flestar trefla úr silki og ull frá fatahönnuðinum Báru en karlarnir tveir sem töluðu fengu sérstakar nærbrækur frá Stígamótum, með áletruninni „Ég ber ábyrgð“. Að auki fékk norski ráðherrann innrammaða mynd af ríkisstjórn Íslands með kynjagleraugun góðu og bunka af kynjagleraugum til að færa samráðherrum sínum heima fyrir.

Á milli fyrirlestra voru stutt menningaratriði, m.a. söng Stúlknakór Reykjavíkur en einnig lásu ungar stúlkur hugleiðingar sínar um jafnrétti. Þá lék Lay Low nokkur lög.

Fjöldagöngur og útifundir

Í tilefni kvennafrídagsins eru konur hvattar til að leggja niður störf kl. 14.25 í dag. Í Reykjavík verður lagt af stað í fjöldagöngu frá Hallgrímskirkju kl. 15, niður á Arnarhól þar sem flutt verður hátíðardagskrá. Á Akureyri munu konur safnast saman við styttuna af Þórunni hyrnu og ganga að menningarhúsinu Hofi þar sem skemmtidagskrá verður opin öllum. Einnig verða svipaðar uppákomur á Ísafirði, Egilsstöðum, Selfossi og víðar.

Lay Low og Agnes Erla léku fyrir gesti.
Lay Low og Agnes Erla léku fyrir gesti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert