Björgvin tekur aftur við kynferðisbrotadeild

Björgvin Björgvinsson.
Björgvin Björgvinsson. mbl.is/Júlíus

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur óskað eftir því að Björgvin Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, endurskoði þá ákvörðun sína að stíga til hliðar sem daglegur stjórnandi kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Hefur Björgvin fallist á það.

Björgvin óskaði eftir því í ágúst að víkja vegna ummæla sem höfð voru eftir honum í DV og vöktu hörð viðbrögð. 

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni, að Björgvin hafi ásamt samstarfsfólki sínu byggt upp starfsemi kynferðisbrotadeildar LRH frá því að hún var sett á laggirnar 1. janúar 2007 með afar góðum árangri, sem m.a. megi sjá í umfjöllun ríkissaksóknara um meðferð kynferðisbrota í greinargerð til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins frá því í haust.

„Björgvin nýtur og hefur ætíð notið fyllsta trausts yfirstjórnar lögreglu, en hann hefur að undanförnu stýrt með góðum árangri umfangsmikilli og flókinni rannsókn lögreglu á manndrápsmáli í Hafnarfirði, sem nú er lokið. Við þau þáttaskil hafi hann verið beðinn um að endurskoða ákvörðun sína eins og að framan greinir," segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert