Úrslitatilraun gerð í Ósló

Engin niðurstaða fékkst í viðræðum í vikunni um makrílkvóta.
Engin niðurstaða fékkst í viðræðum í vikunni um makrílkvóta.

Engin niðurstaða fékkst í viðræðum um stjórn makrílveiða á næsta ári  á fundi strandríkja í Lundúnum í dag. Að sögn formanns íslensku samninganefndarinnar ber enn mikið á milli aðila en ákveðið var að gera úrslitatilraun til að ná samkomulagi á fundi í Ósló 25.-26. nóvember.

Fundurinn var haldinn í tengslum við ársfund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar í vikunni.  Tómas H. Heiðar, formaður íslensku samninganefndarinnar, segir að Íslendingar bíði enn eftir raunhæfu útspili frá Evrópusambandinu og Noregi. Á síðasta fundi, sem haldinn var í lok október lögðu Norðmenn til að hlutur Íslands í makrílveiðunum á næsta ári yrði 3,1% af heildarkvótanum og Evrópusambandið lýsti sig fylgjandi þeirri tillögu. 

„Við sögðum þá, að þetta væri algerlega óraunhæft og höfum kallað eftir raunhæfara útspili," sagði Tómas. „Við vísuðum til þess síðast, að 23% makrílstofnsins hefði verið í íslensku lögsögunni á helsta fæðuöflunartímabilinu í sumar og þá fitað sig um fjórðung. Við teljum nauðsynlegt, ef samkomulag á að nást, að Evrópusambandið og Noregur taki tillit til þessara breyttu forsendna og ræði við okkur um raunhæfar tillögur," sagði Tómas.

Það eru Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið auk Íslands sem taka þátt í viðræðum um skiptingu makrílaflans á næsta ári. Tómas sagðist ekki hafa upplýsingar um hvort Færeyingar hefðu fengið tilboð frá Norðmönnum og Evrópusambandinu um hlut í heildaraflanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert