Knýja á um Icesave

Icesave-lögunum mótmælt.
Icesave-lögunum mótmælt. mbl.is/Kristinn

Bretar og Hollendingar knýja nú stíft á um samninga við íslensk stjórnvöld um Icesave.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru samninganefndir landanna tveggja tilbúnar til þess að gefa umtalsvert eftir af kröfum sínum, miðað við upphaflegar kröfur, og mun Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vera áfram um að ljúka samningum í þá veru sem drögin gera ráð fyrir.

Hann hefur beitt sér fyrir því að forystumenn í atvinnulífinu reyndu að hafa áhrif á stjórnarandstöðuna í þá veru. Fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, að eftirgjöf þjóðanna muni skipta hundruðum milljarða í vaxtakostnaði, sem ella hefði fallið á íslenska ríkið samkvæmt þeim samningi sem íslenska þjóðin hafnaði snemma á þessu ári í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skýrum skilaboðum mun hafa verið komið á framfæri frá breskum og hollenskum stjórnvöldum, um að þau vildu fyrir alla muni ljúka samningum um Icesave hið fyrsta og bæði ríkin væru tilbúin til þess að falla frá upphaflegum kröfum sínum um stórfelldan vaxtakostnað Íslands og að hann yrði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, aðeins brot af upphaflegum kröfum Breta og Hollendinga, eða um 3%.

Í þeim rammadrögum, sem nú liggja fyrir hjá samninganefndum þjóðanna þriggja, mun vera gert ráð fyrir því að Icesave beri enga vexti fyrsta tímabilið, eða í níu mánuði. Þannig verði engir vextir greiddir, þegar upphæðin er hæst, en svo tæpu ári síðar, eða frá haustinu 2009, beri upphæðin ákveðna vexti. Ekki tókst að afla nákvæmra upplýsinga um hversu mikinn kostnað fyrir ríkissjóð drögin fela í sér, en hann mun vera einhvers staðar á bilinu 38 til 50 milljarðar króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert