Klassískur vorstormur fyrir páska

Það ætti að vera útivist til fyrirstöðu um páskahelgina, svo …
Það ætti að vera útivist til fyrirstöðu um páskahelgina, svo lengi sem fólk er vel búið og gætir að veðurspánni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þeir sem hyggja á ferðir milli landshluta um páskahelgina ættu að hafa í huga að von er á stormi að kvöldi skírdags og fram eftir föstudeginum langa. Sjálfa helgina verður veðrið nokkuð meinlaust víða um land en þó almennt fremur kalt í veðri. Veðurstofan minnir á að á íslensku vori er allra veðra von.

Síðla á fimmtudag gengur í suðlæga átt, 15-23 m/s með talsverðri rigningu eða slyddu en snjókomu inn til landsins. Á norðausturlandi verður þó hægara veður og að mestu úrkomulaust fram á kvöld. Hvassviðrið heldur áfram fram á föstudag með skúrum eða éljum en með kvöldinu mun draga úr vindi.

Klassískur vorstormur

„Það verður örugglega snjókoma á fjallvegum og náttúrulega hálka og hvassviðri, í raun svona klassískur vorstormur,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Þetta verður væntanlega frá svona 18 á skírdag og gengur ekki niður fyrr en um miðnætti á föstudaginn langa, en það verður aðeins karakterbreyting á veðrinu í millitíðinni. Það byrjar með suðvestanátt og samfelldri úrkomu en á föstudaginn langa er þetta orðin suðvestanátt og éljagangur, svipað og hefur verið í dag nema hvassara.“

Ekki uppáhaldsvindátt skíðafólks

Þrátt fyrir þetta ætti að verða ágætisveður til útivistar um helgina. „Að vísu eru svona suðvestanáttir ekki uppáhaldsáttir skíðafólks á norðvesturlandi, en þetta er ekki mikill vindur og gæti vel verið að það sleppi og verði allt í lagi,“ segir Elín.

Á íslensku vori er allra veðra von, eins og Veðurstofan minnir á á Facebook-síðu sinni í kvöld. „Það eru engar líkur á því að það verði sérstaklega hlýtt eða milt og fólk geti farið út í langar ferðir illa búið,“ áréttir Elín. „Það er bara apríl.“

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert