„Þarf kannski að spyrja yfirmanninn“

Hluti af línunni sem Anna verður með til sýnis á …
Hluti af línunni sem Anna verður með til sýnis á tískuvikunni. mynd/Ingibjörg Torfadóttir

Íslenskur fatahönnuður tekur þátt ásamt 12 fulltrúum Marangoni hönnunarskólans á tískuvikunni í Sjanghæ þar sem þeir sýna eigin hönnun.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig og okkur öll að koma fram. Þetta er risasýning og heil vika þar sem eru tískusýningar á helstu asísku merkjunum og merkjum sem höfða sérstaklega til Asíu,“ segir fatahönnuðurinn Anna Rakel Ólafsdóttir í samtali við mbl.is.

Hún segir að tískuvikan í Sjanghæ sé smátt og smátt að vinda upp á sig en hún er ekki orðin jafn stór og sýningarnar í New York, London, París og Mílanó. Aðspurð líst henni vel á verkefnið en þetta er fyrsta heimsókn hennar til Kína.

Anna útskrifaðist úr hönnunarskólanum Marangoni í París í júní í fyrra og frá því í haust hefur hún verið í starfsnámi við Givenchy-tískuhús borgarinnar, en hún er búsett þar ásamt unnusta sínum og tveimur börnum. Mbl.is fjallaði um Önnu fyrir tveimur árum þegar hún hafnaði í öðru sæti í úrslitum Triumph Inspiration Award sem fram fór í París.

Hér er flugmiðinn þinn og hér er hótelbókunin

„Ég var beðin um að fara fyrir hönd skólans míns til að taka þátt í tískuvikunni,“ segir fatahönnuðurinn Anna. Hún segir að skólinn sé starfræktur í París, London og í Mílanó á Ítalíu og nýjasta viðbótin sé í Sjanghæ.

Að sögn Önnu koma átta frá skólanum í Mílanó, þrír frá London og er Anna sú eina sem kemur frá París. „Við erum þrjú útskrifuð og restin er á síðasta ári í skólanum. Við erum að sýna það sem við erum að gera og erum búin að gera,“ segir Anna og bætir við að hver fulltrúi sé með þrjár hannanir til sýnis, þ.e. heildarútlit.

Marangoni hafði samband við Önnu fyrir um tveimur mánuðum þar sem þeir sögðu við hana að þeir væru að íhuga að senda hana út sem fulltrúa skólans. Anna sagðist þurfa að hugsa málið enda í vinnu og með tvö börn og því óvíst hvort hún kæmist út.

„Fyrir þremur vikum þá allt í einu fékk ég annan tölvupóst. „Til hamingju þú varst valin. Hér er flugmiðinn þinn og hér er hótelbókunin. Góða ferð.“ Og ég var bara: „Já, ókei úps. Ég þarf kannski að spyrja yfirmanninn fyrst“,“ segir Anna og hlær. En allt gekk upp að lokum.

Þétt dagskrá

„Ég var í 24 tíma ferðalagi en við lentum klukkan fjögur í nótt að staðartíma og við vorum mætt í mátun klukkan níu í morgun; þannig ég hef sofið lítið. Þetta er svolítið inn og út ferð,“ segir hún og hlær, en fulltrúar skólans taka þátt í tískusýningu á morgun og svo er haldið heim á fimmtudag. „Við náum örugglega ekki að sjá mikið af borginni; ég myndi vilja sjá miklu meira. Þetta er svo stutt prógramm.“

Spurð út í starfsnámið segir hún: „Ég er á sex mánaða samning. Honum lýkur núna einhverntímann í maí og svo veit maður ekki með framhaldið. Það er þannig í tískuheiminum að maður fær ekki að vita neitt fyrr en bara vikunni áður en samningurinn rennur út,“ segir hún og hlær. „Maður bíður og vonar - krossar fingurna og reynir að standa sig mjög vel.“

Sannkallaður heimshornaflakkari

Óhætt er að fullyrða að Anna sé sannkallaður heimshornaflakkari þessa dagana. „Ég er að lenda [í París] að ég held á fimmtudagskvöldið - eitthvað í kringum miðnætti. Mæti svo í vinnu á föstudaginn klukkan níu og svo er ég að fara í flug til Íslands um kvöldið, en ég verð á Íslandi yfir páskahelgina og svo aftur í vinnuna á þriðjudag,“ segir Anna sem ætlar að heimsækja fjölskyldu sína á Íslandi yfir hátíðina. 

Þegar blaðamaður hafði samband var Anna í smá pásu og á leiðinni að hitta félaga sína í kvöldmat. „Ég ætla að fá mér að borða og fara svo beint að sofa,“ sagði Anna að lokum enda betra að vera vel nærður og upplagður þegar í nógu er að snúast.

Heimasíða Önnu Rakelar

Tískuvikan í borginni hófst 9. apríl sl. og henni lýkur …
Tískuvikan í borginni hófst 9. apríl sl. og henni lýkur á fimmtudag. AFP
Anna Rakel Ólafsdóttir er búsett í París en þar er …
Anna Rakel Ólafsdóttir er búsett í París en þar er hún í starfsnámi hjá Givenchy tískuhúsinu. ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Frá Sjanghæ í Kína.
Frá Sjanghæ í Kína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert