Lögbanni frestað í tíu daga

Lögbannsgerð vegna gjaldtöku við Geysi var í morgun frestað til 25. maí af sýslumanninum á Selfossi. Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði síðastliðinn mánudag að embættinu bæri að verða við kröfu ríkisins um að leggja lögbann á gjaldtökuna. Sýslumaðurinn hafði áður hafnað þeirri kröfu. Um sameiginlega ákvörðun ríkisins og Landeigendafélags Geysis var að ræða.

Aðilar málsins hafa þar með tækifæri til þess að fara betur yfir úrskurðinn og mögulega ræða saman um málið að sögn Ívars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns og lögmanns ríkisins í málinu. Hann hafði áður opnað á þennan möguleika eins og mbl.is fjallaði um í gær. Hann segist ekki endilega eiga von á að mögulegar viðræður leiði til einhvers konar samkomulags en það sé engu að síður jákvætt ef menn bera saman bækur sínar.

„Við fögnum þessu bara og sérstaklega skilaboðum lögmanns ríkisins að þeir vilji tala við okkur á jafnréttisgrundvelli. Við höfum alltaf lýst okkur reiðubúna til viðræðna en við höfum bara aldrei fengið það samtal, allavega ekki á jafnréttisgrunni,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis. Spurður um framhald gjaldheimtu við Geysi segir hann að henni hafi verið hætt eftir að úrskurður héraðsdóms lá fyrir og samkomulag sé um að henni verði ekki haldið áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert