Síminn ekki lengur með „umtalsverðan markaðsstyrk“

Veigamestu aðgangshindranirnar sem áður voru ríkjandi á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum eru ekki lengur til staðar í þeim mæli að geta talist miklar og viðvarandi. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar. 

„Niðurstaða PFS er Síminn sé ekki lengur með umtalsverðan markaðsstyrk á þessum markaði eins og fyrirtækið var með skv markaðsgreiningu árið 2007, sbr. ákvörðun PFS nr. 20/2007. Þær kvaðir sem lagðar voru á Símann með þeirri ákvörðun eru því felldar niður með þessari nýju ákvörðun,“ segir í ákvörðun stofnunarinnar sem birt var í dag. PFS telur að þau fjárskiptafyrirtæki sem þörf hafa fyrir að bjóða viðskiptavinum sínum leigulínur í smásölu eigi greiðan aðgang að heildsöluþjónustu sem þjónar þörfum þeirra.

„Búast má við ákvörðun PFS á þeim heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína í byrjun maí nk. Þriðji og síðasti leigulínumarkaðurinn, heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14), er svo væntanlegur í innanlandssamráð í vor og er endanlegrar ákvörðunar á þeim markaði að vænta með haustinu. PFS mun áfram fylgjast náið með þeim markaði sem ákvörðunin nú fjallar um og er stofnunin tilbúin að taka til skoðunar hvort gera þurfi aðra greiningu ef aðstæður breytast verulega,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert