Innbrot í austurborginni

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum ávana- eða fíkniefna og þá var einnig lagt hald á kannabisplöntur.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot og þjófnað í verslun í austurborginni. Þjófarnir höfðu á brott með sér nokkrar fartölvur en ekki er enn vitað hver eða hverjir voru þar að verki.

Í Hafnarfirði var kannabisræktun stöðvuð á tíunda tímanum í gærkvöldi og lagt hald á þrjátíu plöntur. Á tólfta tímanum var síðan lagt hald á 100 grömm af kannabis í heimahúsi í bænum. 

Þá voru alls fimm ökumenn stöðvaðir í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- eða fíkniefna. Hjá einum fundust jafnframt ætluð fíkniefni við leit í bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert