Líf og fjör á fyrsta sumardegi

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í tilefni dagsins verður að venju samkvæmt blásið til hátíðarhalda víðsvegar um land og í flestum hverfum höfuðborgarinnar má finna fjölbreytta skemmtidagskrá til að fagna sumrinu.

Sumarhátíðir verða í öllum borgarhverfunum í dag og verður meðal annars boðið upp á skemmtidagskrá við frístundamiðstöðvar og í sundlaugum.

Í Vesturbænum verður til dæmis árleg skrúðganga frá Melaskóla með Lúðrasveit Reykjavíkur og Ægisbúa í fararbroddi. Að henni lokinni verður skemmtidagskrá í Frostaskjóli á planinu með trúðnum Wally, söngatriðum unglinga úr hverfinu, hoppuköstulum og svo framvegis

Í Bústaðahverfi verður boðið í gómsætt sumargrill í Grímsbæ í hádeginu og klukkan eitt hefst skrúðganga frá sama stað og endar hún í Bústaðarkirkju.

Hátíðarnar í Reykjavík eru samstarfsverkefni frístundamiðstöðvanna, þjónustumiðstöðva og frjálsra félagasamtaka í hverfunum. Hér má sjá dagskrána í heild sinni.

Þá verður mikið um dýrðir í Garðabæ, en hátíðahöldin þar á bæ eru í umsjá Skátafélagsins Vífils, en dagskrána má finna hér.

Hátíðarhöld verða að venju í Kópavogi. Dagskráin hefst með skátamessu í Digraneskirkju klukkan 11 en einnig verður skrúðganga og fjölskylduskemmtun í Fífunni, auk þess sem klifurveggur og hoppukastalar standa gestum til boða. Skátafélagið Kópar sér um dagskrána.

Firmakeppni til styrktar Reykjadal

Nemendur í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík standa fyrir firmakeppni til styrktar Reykjadal í dag frá klukkan 13 til 17. Keppnin fer fram í Laugardalshöll.

Keppt verður í tveimur greinum, hjólastólasprett og hjólastólahandbolta. Kynnir verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en þeir Adolf Ingi Erlingsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson sjá um að lýsa keppninni. Meðal þátttakenda verða lið frá Símanum, Össur, Norðuráli, Landsbankanum og fjöldanum öllum af öðrum fyrirtækjum.

Boðið verður upp á leiktæki og andlitsmálun fyrir börnin auk þess sem gestum og gangandi gefst meðal annars kostur á að prufa hjólastóla.

Að söfnuninni standa sex meistaranemar í verkefnisstjórnun við Háskólann í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu. Söfnunin er hluti af áfanga þar sem nemendunum er falið að skipuleggja og framkvæma raunhæft verkefni sem á að þjóna samfélaginu á einhvern hátt.

Allur ágóði söfnunarinnar mun renna til Reykjadals. Aðgangur er ókeypis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert