Rætt um réttarstöðu borgaranna

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rætt verður um réttarstöðu borgara í samskiptum sínum við yfirvaldið, þá sér í lagi samskipti hins almenna borgara og löggæsluliða, á umræðufundi í Bíó Paradís, á morgun.

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður, mun flytja erindi um réttindi borgaranna gagnvart yfirvöldum og hvernig framkvæmdin hefur þróast. Hann mun meðal annars fjalla um hvort löggjafinn, stjórnvöld og dómstólar hafi víkkað út almannahagsmunahugtakið á kostnað grunnréttinda einstaklingsins, að því er segir í fréttatilkynningu.

Þá mun Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, fjalla um sjónarmið lögreglunnar í þessum efnum, en hann mun taka þátt í pallborðsumræðum.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Aðalheiður Ámundadóttir, starfsmaður Alþingis og lögfræðingur, munu einnig taka þátt í pallborðsumræðunum.

Hægt verður að senda spurningar undir nafnleynd, en frekari upplýsingar um fundinn má finna hér.

Píratar standa að skipulagi fundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert