Hafa merkt 1.106 unga

Kría á Álftanesi.
Kría á Álftanesi. Ómar Óskarsson

Kríuvarp gengur vel á Suðausturlandi. Á svipuðum tíma í fyrra var varp einnig mjög gott enda var nægt framboð af æti líkt og nú. Brynjúlfur Brynjólfsson hjá Fugla­at­hug­un­ar­stöð Suðaust­ur­lands segir að margir ungar séu komnir á flug og varpið sé mjög gott.

„Við erum búnir að merkja 1.106 unga núna, í fyrra merktum við 1.129 unga,“ segir Brynjúlfur.

Hann segir að gríðarlegt æti sé á svæðinu fyrir fuglinn og því gangi varpið vel. „Þessi stóru vörp eins og á Höfn, við Jökulsárlón og á Hala eru bara mjög góð,“ segir hann.

Brynjúlfur segir að nýlega hafi hann ekið um Suðurland og komið auga á marga fleyga kríuunga. Þessa unga telur hann koma innan af landi.

Brynjúlfur er umsjónarmaður vefsíðunnar www.fuglar.is en þar má meðal annars sjá myndir af flækingsfuglum sem koma hingað til landsins. Sumir þeirra eru heldur óvenjulegir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert