Húni II á heimleið frá Færeyjum

Húni II er í góðu ástandi að sögn Þorsteins.
Húni II er í góðu ástandi að sögn Þorsteins. Af vef Þorgeirs Baldurssonar

Húni II er lagður af stað til Íslands á ný eftir viðkomu í Klakksvík í Færeyjum. Þar stoppaði báturinn eftir olíu á ferð sinni frá Osló í Noregi þar sem hann var á norrænu strandmenningarmóti. Húni II var smíðaður á Akureyri árið 1963 og er eini eikarbáturinn sem óbreyttur er í þessari stærð á Íslandi.

Að sögn Þorsteins Péturssonar, varaformanns Hollvinasamtaka Húna II, hefur ferðin gengið mjög vel í alla staði. „Veðrið hefur leikið við okkur og allir eru frískir um borð og ekkert hefur komið upp með bátinn. Hann er í svo góðu lagi og vel undir þetta búinn,“ segir Þorsteinn.

Báturinn siglir nú á 9-10 sjómílna hraða á klukkustund og gerir Þorsteinn ráð fyrir að koma til hafnar á Akureyri um kl. 17-19 á föstudag.

Hann ber Klakksvík vel söguna. „Þar voru móttökurnar alveg einstakar. Mikil þjónustulipurð og alltaf gaman að koma þangað. Það er eins og þeir eigi í manni hvert bein,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert