Þrýsta á íslensk stjórnvöld

Frá síðasta útifundi Íslands-Palestínu sem haldinn var á Lækjartorgi.
Frá síðasta útifundi Íslands-Palestínu sem haldinn var á Lækjartorgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mun flytja ávarp á útifundi sem haldinn verður á Ingólfstorgi síðdegis um ástandið á Gaza. Tilgangurinn með útifundinum er að lýsa yfir samstöðu með íbúum Gaza, fordæma árásir Ísraelshers og þrýsta á íslensk stjórnvöld að vera meira afgerandi í andstöðunni við blóðbaðið.

Á samfélagsvefnum Facebook hafa um tvö þúsund manns staðfest komu sína á útifundinn og segja fundahaldarar að myndast hafi þjóðarsamstaða um málið. Auk Félagsins Ísland – Palestína eru íslensk verkalýðsfélög og stjórnmálaflokkar meðal fundaboðenda að útifundi um Gaza í Reykjavík síðdegis í dag. Þar má nefna Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Öryrkjabandalag Íslands, Kennarasamband Íslands, SFR, Verkalýðsfélag Akraness, Efling, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Dögun, Píratar, VG, Samtök hernaðarandstæðinga og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, sem hafa lýst yfir þátttöku sinni.

Fundurinn er haldinn undir kjörorðunum: „Stöðvum blóðbaðið á Gaza tafarlaust, alþjóðlega vernd fyrir Palestínumenn, burt með herkvína um Gaza, niður með hernámið og frjáls Palestína“.

Að loknum fundi verður gengið að Stjórnarráðinu með minningarkrans með borða sem á eru skráð nöfn meira en 600 fórnarlamba hernaðar Ísraels hingað til. Við það tækifæri verður forsætisráðherra afhent ályktun fundarins. Þar sem forsætisráðherra er staddur erlendis mun aðstoðarmaður hans, Jóhannes Skúlason, taka við ályktuninni og ávarpa fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert